„Vorum teknir í bakaríið"

Fararskjótinn Lucinda.
Fararskjótinn Lucinda. mbl.is

„Þetta hefur gengið þokkalega vel, erum komnir til Úkraínu, á leið til Donersk og erum aðeins á undan áætlun," segir Arnar Freyr Vilmundarson, sem tekur þátt í kappakstri frá London til Mongólíu ásamt Christopher Friel, skoskum félaga sínum. 

„Við keyrðum í 23 tíma í gær og sváfum í bílnum í tvo tíma," segir Arnar og bætir við að til standi að fara snemma til Donersk og hvíla sig þar og halda svo til Rússlands á morgun. 

Aðspurður hvort þeir félagar hafi lent í ógöngum á leiðinni segir Arnar að þeir hafi þurft að fara yfir fjögur landamæri í gær og að þeir hafi verið „teknir í bakaríið" af vörðum við suðausturlandamæri Moldavíu og Úkraínu.  

„Þegar við komum að landamærunum var mér vísað inn í stæði en ég keyrði óvart inn í vitlaust stæði.  Vörðurinn sagði það grafalvarlegt mál sem þyrfti að tilkynna," segir Arnar og bætir við að farið hafi verið í vandlega í gegnum allan farangur, og hann spurður spjörunum úr í einn og hálfan tíma.   „„Vörðurinn talaði bara rússnesku en að lokum þurftum við að borga honum 150 dollara til þess að losna, þetta reddaðist þó allt, hann var orðinn besti vinur minn í lokin," segir Arnar.

Arnar og Christopher lögðu af stað frá London á laugardag og hyggjast keyra til Mongólíu á 24 dögum.  Tilgangur Mongólíurallsins er að safna peningum til góðgerðarmála í Mongólíu.  Eitt af skilyrðum kappakstursins er að keyra leiðina á gamalli druslu en þeir félagar keyra Suzuki SJ frá árinu 1988, sem hefur fengið gælunefnið Lucinda.  Samkvæmt reglum keppninnar má vél ökutækisins ekki vera stærri en 1000 cc. en að sögn Arnars hefur Lucinda staðið sig vel.

„Ef allt gengur að óskum næstu tvo daga erum við tveim dögum á undan áætlun.  Við stefnum á að vera komnir til Kazakhstan á laugardag, og þá byrjar ballið," segir Arnar að lokum.

Hægt er að fylgjast með ferðum Arnars og Christophers á bloggsíðu þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert