Átta handteknir í Keflavík

Nóg var að gera hjá lögreglunni á Suðurnesjum í dag.
Nóg var að gera hjá lögreglunni á Suðurnesjum í dag. mbl.is/Hilmar Bragi

Átta manns voru handteknir í Keflavík í morgun eftir að lögregla réðist inn í hús þar sem stóð yfir samkvæmi. Lögreglan fékk klukkan 6 í morgun tilkynningu um karlmann, sem lægi fyrir utan húsið. Maðurinn reyndist vera ökklabrotinn og með töluverða áverka í andliti.

Að sögn lögreglu, var maðurinn, sem hafði verið gestkomandi í húsinu, fluttur með sjúkrabíl á slysadeild í Reykjavík. Vegna alvarleika málsins fjölmenntu lögreglumenn og réðust til inngöngu í húsið en þar stóð yfir samkvæmi. Lögreglan á Suðurnesjum þáði aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra og handtók fólkið, sem talið var hafa neytt fíkniefna. Fimm þeirra eru enn í haldi lögreglu. 

Talsvert hefur verið að gera hjá lögreglunni á Suðurnesjum í dag. Um klukkan 12 sáu lögreglumenn þar sem ökumaður bíls  ók viðstöðulaust inn á gatnamót í veg fyrir aðra bifreið. Lentu svo þessir bílar saman. Sá sem árekstrinum olli reyndi að komast undan en lögregla stöðvaði för hans skömmu síðar og reyndist hann vera réttindalaus.

Um klukkan 14 var tilkynnt um innbrot í hús í Njarðvík. Lögreglan fór á vettvang og voru þá tveir menn í íbúðinni sem eru grunaðir um innbrotið. Voru þeir handteknir og vistaðir í fangageymslu.

Einn ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit fundust tvö grömm af meintu amfetamíni. Ökumaðurinn var látin laus eftir yfirheyrslu.

Einn ökumaður bifreiðar var stöðvaður á Reykjanesbraut vegna hraðaksturs en hann er einnig grunaður um ölvun við akstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert