Ráðlegt að takmarka dragnótaveiðar

Á dragnótarveiðum.
Á dragnótarveiðum. mbl.is/Ásdís

Skynsamlegt væri að loka tilteknum uppeldissvæðum fiskstofna fyrir dragnótaveiðum líkt og gert er fyrir veiðum með botnvörpu af ýmsum ástæðum. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

Stofnunin telur sig þó ekki, að svo komnu, búa yfir þeim gögnum sem nauðsynleg eru fyrir tillögur af þessu tagi.

Markmiðið með útgáfunni var að auðvelda stjórnvöldum að ákvarða hvort dragnótaveiðar væru hugsanlega skaðlegar eða leiddu til brottkasts og veiða á smáfiski umfram aðrar veiðar. 

Í fjölritinu segir að fyrsta skrefið gæti verið að takmarka dragnótaveiðar á innanverðum fjörðum þar sem eru líklegar uppeldisstöðvar fyrir flatfisk- og bolfisktegundir. Þá komi til greina að takmarka veiðar á grunnu vatni við tveggja byrða dragnætur sem greinilega veiða síður bolfisk, auk takmarkana á bátastærð.

Hafrannsóknastofnun segir að með þessu móti kynni að draga úr hagsmunaárekstrum milli þeirra sem stunda veiðar með mismunandi veiðarfærum en deilur hafa staðið yfir áratugum saman milli dragnótamanna og krókaveiðimanna um ágæti dragnótar.

Í lok fjölritsins er þó tekið fram að beinar tillögur af þessu tagi séu taldar utan verksviðs Hafrannsóknastofnunarinnar nema þegar gæta þurfi beinna verndunarsjónarmiða, t.d. vegna mikils magns af smáfiski eða hrygningarslóða á hrygningartíma. Skýrsluna vann Hrafnkell Eiríksson veiðarfærasérfræðingur. 

Dragnótaveiðar voru allt til ársins 1984 bundnar við síðari hluta ársins. Þá var stærð dragnótabáta einnig takmörkuð við 35-45 brl. eða 20 m mestu lengd. Síðan þá hafa veiðarnar hins vegar verið leyfðar allt árið um kring og stærðartakmörkum að mestu aflétt. Yfirferð meðaldragnótakasts hefur verið metið að jafnaði 2,23 km².

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert