Berja konurnar af örvæntingu

„Fólk sem beitir sína nánustu ofbeldi er óskaplega hrætt við að missa þann sem því þykir vænt um og er reiðubúið að gera næstum hvað sem er til að halda því. Sá ótti leiðir til ofbeldisins.“

Þetta segir Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur og verkefnisstjóri Karla til ábyrgðar, meðferðarúrræðis fyrir karla sem beita ofbeldi. Hafa hátt í 130 karlar og ein kona leitað sér þar aðstoðar til þessa. Útskrifast hafa um þrjátíu karlar.

Ingólfur segir ofbeldisfólk oft hafa upplifað ástvinamissi eða svik í bernsku sem það óttist að verða fyrir aftur. „Því finnst það síðan verða að hafa stanslaust eftirlit með sínum nánustu til að tryggja að það hafi þá út af fyrir sig,“ segir hann.

Aðspurður um hvað leiði svo til ofbeldisins segir Ingólfur það vera örvæntingu. „Þegar við tölum við karlana er algengt að þeir segist upplifa fullkomið valdaleysi þegar þeim er laus höndin. Þetta eru örvæntingarviðbrögð, svipað og foreldrar geta upplifað gagnvart börnum þegar þau hlýða ekki.“

Meðferðin sem boðið er upp á í verkefninu Körlum til ábyrgðar, hefst á tveimur einstaklingsviðtölum með sálfræðingi sem fylgt er eftir með hópmeðferð þar sem blandað er saman nýliðum og lengra komnum. Um helmingur þeirra sem hefur meðferð hættir við, sem Ingólfur segir sams konar brottfall og reynslan sýni erlendis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert