Leikfangakeðja úr sögunni

Um fimmtán fastráðnir starfsmenn og annað eins af lausráðnu starfsfólki misstu vinnuna þegar tveimur leikfangaverslunum Just 4 Kids var lokað fyrir verslunarmannahelgi. Þar með lauk umfangsmiklum en skammvinnum rekstri þessarar íslensku verslanakeðju.

Fyrsta verslun Just 4 Kids var opnuð í Garðabæ síðla árs 2007 af þáverandi eigendum Leikbæjar en þeir sögðu að verslunin væri mótleikur þeirra gegn yfirvofandi samkeppni frá stórverslun Toys R Us sem var opnuð við Smáratorg um svipað leyti.

Þá stefndu þeir á starfsemi í útlöndum undir merkjum Just 4 Kids.

Áður en verslunin í Garðabæ var opnuð höfðu eigendur Leikbæjar sameinað rekstur Liverpool og Dótabúðarinnar rekstri Leikbæjar og ráku um tíma átta leikfangaverslanir undir merkjum Leikbæjar.

Rekstur þessa leikfangarisa gekk hins vegar ekki sem skyldi og í maí á þessu ári, aðeins um sjö mánuðum eftir að stórverslunin í Garðabæ var opnuð, var Leikbær úrskurðaður gjaldþrota og verslunum Leikbæjar lokað í kjölfarið.

Eftir gjaldþrotið eignaðist annað rekstrarfélag, 1024 ehf., rekstur Just 4 Kids og rak verslanir undir því merki í Garðabæ og í Faxafeni í Reykjavík, þ.e. þar til í liðinni viku. Framkvæmdastjóri þess félags er Ólafur Örn Jónsson. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að það hefði einfaldlega ekki verið grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri. Aðspurður sagði hann að lager verslunarinnar væri allur í eigu leikfangaheildsala sem hefði keypt hann af fyrri eigendum Just 4 Kids á sínum tíma.

Húsið sem hýsti verslun Just 4 Kids í Garðabæ er í eigu fasteignafélagsins Smáragarðs, að sögn Ólafs Arnar. Hann vonaðist til að hægt yrði að afstýra gjaldþroti rekstrarfélagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert