Aðgerðir hefjist í september

Frá fréttamannafundi ljósmæðra í kvöld.
Frá fréttamannafundi ljósmæðra í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ef ljósmæður samþykkja áform um verkfallsaðgerðir munu stigmagnandi verkföll verða í septembermánuði, og allsherjarverkfall ljósmæðra í þjónustu ríkisins skella á þann 29. september, að því er fram kom að loknum félagsfundi í Ljósmæðrafélagi Íslands í kvöld.

Á fundinum var samþykkt einróm að heimila stjórn félagsins að efna til kosninga um verkfallsboðun. Fer kosningin fram í næstu viku. Í fréttatilkynningu í kvöld segir:

„Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands leggur til að fimm sjálfstæð verkföll hefjist með tveggja sólarhringa vinnustöðvun 4. og 5. september. Ef félagsmenn samþykkja áform um verkfallsaðgerðir munu stigmagnandi verkföll eiga sér stað í septembermánuði og allsherjarverkfall ljósmæðra í þjónustu ríkisins skella á þann 29. september.“

Haft er eftir Guðlaugu Einarsdóttur, formanni LMFÍ, að markmið samninganefndar félagsins sé að koma skilaboðum áleiðis til ráðamanna um að ljósmæðrum sé alvara í kjarabaráttunni.

„Samningafundir hafa engan árangur borið fram að þessu og við sáum ekki annan kost í stöðunni en að beita verkfallsvopninu. Við vitum að ráðamenn þjóðarinnar munu láta skynsemina ráða á endanum og koma í veg fyrir að fæðandi fjölskyldur verði af þeirri mikilvægu þjónustu sem ljósmæður veita."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert