Fjöldi farþega Iceland Express bíður í Kaupmannahöfn

mbl.is/Árni Torfason

Fjöldi farþega, sem eiga bóka flug með Iceland Express, bíður nú á flugvellinum í Kaupmannahöfn eftir því að komast til Íslands. Einn farþeganna, sem hafði samband við mbl.is, segir að hann hafi átt flug til Íslands kl. 22 en nú sé útlit fyrir að hann komist ekki í loftið fyrr en kl. 7:30 í fyrramálið.

Bilun kom upp í flugvél félagsins og hafa um 150 farþegar á Akureyri, sem áttu bókað flug til Kaupmannahafnar, þurft að bíða í nokkra klukkutíma eftir að geta komist í flugið. Vélin átti að fljúga síðdegis í dag, en hún kom ekki til landsins fyrr en 17:45. Unnið hefur verið að viðgerð.

Farþeginn, sem ferðast með ungum syni sínum, er mjög ósáttur við framgöngu flugfélagsins, litlar upplýsingar sé að fá og hann segir seinkunina koma sér mjög illa fyrir marga.

„Það kom danskur starfsmaður og hann sagðist ekki geta gert neitt,“ sagði farþeginn í samtali við mbl.is. „Ég er að íhuga það alvarlega að fara í mál við þá {Iceland Express},“ segir hann.

Aðspurður segir hann að tæplega klukkustund fyrir brottför hafi farþegarnir fengið að vita að það yrði seinkun á fluginu. „Þeir hefðu getað hringt í farþegana og látið þá vita þannig að þeir gætu gert aðrar ráðstafanir,“ segir farþeginn sem mbl.is ræddi við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert