Útblástur hefur aukist um 54%

Útblástur koltvírsýrings (CO2) frá bílaumferð í Reykjavík hefur aukist um 54 prósent frá árinu 1990. Þetta kemur fram í samantekt sem ráðgjafarfyrirtækið Alta gerði fyrir umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar og kynnt var fyrir umhverfis- og samgönguráði á þriðjudag. Þar kemur einnig fram að fólksbílum hefur fjölgað um 71 prósent.

Þarf að bæta strætó

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi situr fyrir Vinstri græn í umhverfis- og samgönguráði. „Mengun er að aukast mjög mikið í borginni og það er mjög mikilvægt að borgarfulltrúar líti þetta mjög alvarlegum augum og taki þetta föstum tökum,“ segir hann og bætir við: „Það er mjög athyglisvert að í skýrslunni kemur fram að fimm farþegar í strætó menga álíka og fjórir einkabílar. Það segir okkur hvað sé best að gera, sem er að bæta almenningssamgöngur.“

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á einnig sæti í nefndinni. „Öll þessi mál, eins og Strætó og þessi grænu mál sem við höfum verið að vinna að, eru auðvitað til þess að mæta þessari auknu bílaeign sem er auðvitað aðalmálið,“ segir hún og bætir við: „Við erum mjög meðvituð um þetta og við erum að skoða hvernig við getum hvatt fólk meira til þess að fara leiðar sinnar á annan máta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert