Ólafur: Blekktur til samstarfs

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. Árvakur/Árni Sæberg

Ólafur F. Magnússon segir að það hafi komið á daginn að sjálfstæðismenn hafi blekkt sig til samstarfs og segist yfirgefa stöðu borgarstjóra með söknuði og eftirsjá. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi sem lætur af embætti borgarstjóra á fimmtudag eftir samstarfsslitin í gær.

Yfirlýsing frá Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra:

„Meirihlutasamstarf  F-lista og Sjálfstæðisflokks varð til að frumkvæði sjálfstæðismanna. Þá lá fyrir málefnasamningur undir yfirskriftinni „Velferð og öryggi".

Í málefnasamningunum náðust fram þær sterku áherslur sem ég hef lagt á velferðar-, öryggis- og umhverfismál. Málefnasamningurinn var á jafnréttisgrundvelli og fyrir lágu sterkar heitbindingar
sjálfstæðismanna um að við hann yrði staðið og á grundvelli hans yrði meirihlutasamstarfið látið vara út kjörtímabilið.

Mörgum þótti málefnasamningurinn ótrúlega góður fyrir F-listann og oddviti minnihlutans viðhafði þau orð að með málefnasamningnum væru sjálfstæðismenn „að blekkja Ólaf F. Magnússon til samstarfs"  í þeim tilgangi einum að sprengja meirihluta Tjarnarkvartettsins. Þetta hefur því miður komið á daginn.

Þar sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki bent á nein mál sem kalla mætti stór í umkvörtunum sínum við mig, verð ég að geta mér þess til, að með nýju samstarfi við Framsóknarflokkinn vilji sjálfstæðismenn virkja á kostnað náttúrunnar og byggja á kostnað gömlu götumyndarinnar í miðbænum.

Í samstarfi mínu við sjálfstæðismenn setti ég á oddinn að verja náttúru- og menningarverðmæti fyrir ráðagerðum um stundargróða. Þótt mikið hafi unnist á undanförnum árum og augu fjölda fólks opnast fyrir gildi þeirra verndunarsjónarmiða, sem ég haf lagt áherslu á allan minn stjórnmálaferil, hafa andstæðingar þeirra  náð saman um nýtt meirihlutasamstarf í Reykjavík. Það er því mikilvægt að nýjum meirihluta verði veitt ríkt aðhald, meðal annars í sölum borgarstjórnar. Það hyggst ég gera.

Það voru ekki síður áherslur mínar í velferðar- og réttlætismálum sem greindu á milli mín og fyrrum félaga minna þegar ég gekk úr Sjálfstæðisflokknum árið 2001.Sá áherslumunur virðist enn til staðar. Þegar framundan er sýnilega krappari staða í efnahagsmálum sem  þrengja mun  að fjölskyldum og heimilum í  Reykjavík, er mikilvægt að forgangsraða í þágu velferðar  í borginni.

Ráðdeildarsöm og sterk fjármálastjórn er forsenda þessarar velferðar, og ég hef sannarlega unnið kappsamlega að vönduðum grunni í fjármálastjórn borgarinnar. Það hefur hins vegar komið í hlut annarra borgarfulltrúa meirihlutans að beita sér fyrir  milljarðaútgjöldum til nýrra framkvæmda  sem ekki lúta að málefnasamningi F-lista og Sjálfstæðisflokks. Slíkt  lýsir ekki  ábyrgðartilfinningu, þegar um það er rætt í fullri alvöru að skera niður í velferðarþjónustu borgarinnar. Það er ekki mín forgangsröðun og sannarlega ekki í anda málefnasamningsins.

Ég leyni því ekki að ég mun yfirgefa stöðu borgarstjóra með söknuði og eftirsjá. Það er sárt að þurfa að skilja við öll þau góðu verk sem stofnað var til á grundvelli málefnasamnings F-lista og Sjálfstæðisflokks og  ekki síður allt það góða og dugmikla starfsfólk Reykjavíkurborgar sem lagði sig fram í þeim verkum," að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Ólafi F. Magnússyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert