Ekkert fjármálamisferli innan Alþýðubandalagsins

Matthías Johannessen.
Matthías Johannessen. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Þessi umræða hefur komið upp áður og Jóhann Geirdal, sem var formaður framkvæmdastjórnar á þessum tíma, gaf út yfirlýsingu um að ekkert aðfinnsluvert væri við fjármál Alþýðubandalagsins,“ segir Einar Karl Haraldsson sem var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins frá 1993 til 1996.

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur birt nýja hluta úr dagbókum sínum á vef sínum, matthias.is. Þar grípur hann niður í einkasamtal sem hann átti við Svavar Gestsson árið 1998.

Svavar talar um að fjármálaóreiða hafi ríkt í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar, núverandi forseta Íslands, sem var formaður Alþýðubandalagsins. Í dagbókarfærslu frá 2. apríl 1998 segir m.a. „Hann [Svavar] segir að Ólafur hafi verið slæmur í peningamálum þegar hann var formaður Alþýðubandalagsins. Þá hafi hann haft Einar Karl Haraldsson að hjálparkokki. Hann hafi komið sér upp Visa-gullkorti í nafni Alþýðubandalagsins og notað það óspart.

Þegar Margrét Frímannsdóttir tók við flokknum bárust henni reikningar eins og skæðadrífa og hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það var viðskilnaður Ólafs Ragnars. Þegar Margrét tók við af honum skuldaði Alþýðubandalagið 53 milljónir króna! segir Svavar. Ólafur Ragnar gerði þá samning við Landsbankann um að Alþýðubandalagið fengi 107 milljón króna lán og greiddi það með þeim 20 milljón króna árlegum afborgunum sem það fékk í blaðstyrki frá Alþingi ár hvert. Þar var tekið fram að Alþýðubandalagið greiddi þetta meðan Þjóðviljinn kæmi út, en hann dó drottni sínum einu og hálfu ári síðar, svo að Landsbankinn varð að afskrifa skuldina sem eftir var!,“ segir m.a. í dagbók Matthíasar.

Einar Karl segir bókhald flokksins hafa verið afar ófullkomið á þessum tíma, eins algengt hafi verið með félagsmálahreyfingar á síðustu öld. „Ég hef ekki heildaryfirlit yfir þetta frekar en aðrir og veit ekki hvort Ólafur Ragnar hafði umrætt greiðslukort undir höndum, það sem skipti máli var að fylgiskjöl og reikningar væru í lagi, sem þeir voru. Þetta er bara slúður enda held ég ekki að nokkur maður hafi grætt á því fjárhagslega að vinna fyrir Alþýðubandalagið,“ segir Einar Karl. „Þetta er kannski helst merki um hversu slæmt ástandið var orðið í Alþýðubandalaginu og við þekkjum svona lagað líka úr öðrum flokkum, þegar menn fara að nota bókhald sem bitbein í innanflokksátökum,“ segir Einar.

Varðandi 107 milljóna króna lánið sem Ólafur hafi átt að hafa tekið til að rétta af stöðu flokksins segir Einar greinilegt að verið sé að rugla saman málum. Það lán hafi tengst stöðu Þjóðviljans á þessum tíma. Margrét Frímannsdóttir, sem tók við formennsku af Ólafi Ragnari, hafi svo samið um lán til greiða upp skuldir flokksins.

Dagbækur Matthíasar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert