Nýr meirihluti snýst um stóriðjustefnuna

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Golli

Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG, sagði á fundi borgarstjórnar í dag, að nýr meirihluti í borgarstjórn snérist í raun um stóriðjustefnuna sem almenningur í landinu hefði hafnað. Sagði hún að baráttan um Bitruvirkjun væri hafin á ný.

Sagði Svandís, að nú ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að hefna þess í Ráðhúsinu, sem hallaðist á í Alþingishúsinu. „Nú á að virkja," sagði Svandís og sagði að meirihlutinn væri stóriðju- og virkjanameirihluti Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóra Fréttablaðsins. 

Þá sagði Svandís, að meirihlutinn væri skopmynd af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, sem hefði ríkt í 12 ár og Framsóknarflokkurinn hefði góða reynslu af því að vera hjálpardekk Sjálfstæðisflokksins.

Svandís sagði að hræringar undanfarinna missera gæfu fullt tilefni til að ræða hvort breyta eigi lögum þannig að hægt sé að kjósa á miðju kjörtímabili við sérstakar aðstæður. Ýmislegt fleira ætti að ræða, svo sem stöðu borgarstjóra og hvort ástæða væri  til að hafa fleiri borgarstjóra en einn.

Hún sagði, að VG vinni eftir málefnum. Flokkurinn hefði lagt áherslu á samstarf við Samfylkinguna þótt flokkarnir hafi ekki borið gæfu til að vinna saman í landsmálum. Stefna flokkanna væri að mörgu leyti lík en einnig ólík og hugsjónir flokkanna  samræmist ekki virkjana- og niðurrifsofstæki Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert