Um milljarður í dráttarvexti

mbl.is

„Það er alveg ljóst að við treystum okkur ekki til að kaupa þennan hlut,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), um hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja (HS), en stefna bæjarins á hendur OR vegna kaupanna verður dómtekin í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag. Þar er farið fram á að OR standi við gerðan samning og greiði bænum 7,7 milljarða króna auk dráttarvaxta fyrir 14,65 prósenta hlut bæjarins.

Að sögn Stefáns Geirs Þórissonar, lögmanns Hafnarfjarðar, eru dráttarvextirnir um 25 prósent, eða 5,2 milljónir á hvern dag.

Hluturinn gjaldféll 10. mars síðastliðinn. Síðan eru liðnir 169 dagar og því eru dráttarvextir þegar komnir í um 885 milljónir króna. Stefán á ekki von á að það takist að semja um niðurstöðu. „Ég hef ekki orðið var við neinar vísbendingar um sátt í málinu. Það standa allir fastir á sínu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert