VG í Skagafirði mótmælir flutningi Reykjavíkurflugvallar

Reykjavíkurflugvöllur
Reykjavíkurflugvöllur mbl.is/Golli

VG í Skagafirði mótmælir harðlega þeirri ákvörðun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur að reka innanlandsflugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni, að því er segir í fréttatilkynningu.

„ Nýr meirihluti í borginni, sem stofnaður var fyrir atbeina Geirs Haarde og Guðna Ágústssonar, gengur nú þvert á vilja landsbyggðarinnar og ætlar að gera það sitt fyrsta verk að sparka flugvellinum úr höfuðborginni.

Þetta er gert án þess að fyrir liggi skýr áætlun um nýja staðsetningu flugvallar sem henti landsmönnum til ferða innanlands. Þá er það einkar dapurlegt að byggingu samgöngumiðstöðvar skuli slegið á frest um ófyrirséðan tíma, einmitt nú þegar uppbyggingar er þörf.

Innanlandsflugvöllurinn í Vatnsmýrinni gegnir lykilhlutverki í samskiptum landsbyggðar og höfuðborgar. Hann gegnir einnig lykilhlutverki fyrir öryggi og sjúkraflug í landinu. Staðsetning flugvallarins hefur ítrekað sannað gildi sitt í þessum efnum og það er spurning hvort ekki þurfi að endurskoða uppbyggingu bráðaþjónustu Landspítalans ef þessi áform meirihlutans í Reykjavík ná fram að ganga.

Í skoðanakönnunum hefur ítrekað komið í ljós að meirihluti höfuðborgarbúa styður flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni og hefur skilning á því að Reykjavík eigi að heita höfuðborg allra landsmanna. Ekki þarf að spyrja um afstöðu landsbyggðarinnar í þessum efnum.

Félag VG í Skagafirði krefst þess að sjónarmið og þarfir landsmanna allra séu höfð að leiðarljósi þegar framtíð flugvallarins er annars vegar, og hvetur Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að endurskoða þennan brottrekstur innanlandsflugs úr borginni nú þegar," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert