Landsmenn þokkalega ánægðir með skólakerfið

Landsmenn eru almennt ánægðir með íslenska leikskóla.
Landsmenn eru almennt ánægðir með íslenska leikskóla. mbl.is/Frikki

Íslendingar eru sæmilega ánægðir með skólakerfi og að meðaltali gáfu þátttakendur í Þjóðarpúlsi Gallup því einkunnina 6,7 á kvarðanum 1-10.   Er það nánast sama niðurstaða og fékkst í maí árið 2006 þegar Gallup spurði síðast um þessi efni.

Rúmlega 37% gáfu skólakerfinu einkunn á bilinu 8-10, tæp 50% gefa því einkunn á bilinu 5-7 og rúm 13% gefa því falleinkunn á bilinu 1-4.

Aldur svarenda hefur mikil áhrif á viðhorfin. Ánægjan er minnst meðal svarenda á aldursbilinu 18-24 ára þar sem 21% gefa skólakerfinu falleinkunn en um 30% í sama aldurshópi gefa því ágætiseinkunn. Ánægjan er hins vegar mest í elsta aldurhópnum, 55-75 ára, þar sem rúm 44% gefa skólakerfinu ágætiseinkunn. Rúmlega 15% í þeim hópi gefa þó falleinkunn.

Mest ánægja er með leikskólana en rúm 73% sögðust ánægð með þá. Litlu minni ánægja ríkir með háskólana, en rösklega 72% landsmanna sögðust ánægð með íslenska háskóla. Rúm 67% sögðust ánægð með  framhaldsskólana en ánægjan er minnst með grunnskólastigið þar sem rúm 59% sögðust ánægð með hérlenda grunnskóla.

Dregur úr ánægju með grunnskóla

Gallup spurði jafnframt viðhorf til helstu hlutverka grunnskólans og kom þar í ljós að ríflega 61% telja kennslu í íslenskum grunnskólum almennt góða, sem er um 6 prósentum minna en fyrir þremur árum. Rúm 48% landsmanna eru þeirrar skoðunar að hæfni íslenskra  grunnskólakennara sé mikil, sem er um 6 prósentum minna en síðast.

Gallup segir að töluvert dragi einnig úr ánægju með hversu vel grunnskólarnir sinni félagslegu uppeldi nemenda en 40% eru ánægð með það nú miðað við 50% árið 2006. Nærri 23% landsmanna segjast óánægð með það hvernig skólarnir sinni félagslegu uppeldi nemenda miðað við  18% þegar síðast var spurt.

Tæplega 64% svarenda telja skólana skapa góðar aðstæður til að auka þekkingu nemenda og rúm 55% telja þá styðja vel við heilbrigða lífshætti. Tæplega 54% telja grunnskólana undirbúa nemendur vel fyrir nám í framhaldsskóla en einungis tæplega 36% landsmanna telja að skólarnir búi nemendur vel undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka