Með bíl sem lækkar en lánin hækka enn

Undanfarin ár hefur verið slegið hvert metið á fætur öðru í bílasölu. Eftir fall krónunnar í mars hefur orðið mikill samdráttur en bílaeigendur sitja uppi með bíla sem þeir geta ekki selt en ráða ekki við afborganir.

„Það er mikið um að fólk sé í vandræðum með bílalán. Það má til dæmis sjá í auglýsingum dagblaðanna að fólk er að bjóða yfirtöku á bílaánum og meðgjöf í peningum. Þetta er töluvert algengt,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Hann segir marga hafi farið fram úr sér undanfarið og bendir á að lánafyrirtækin og sölumenn bifreiða hafi haldið áfram að bjóða gengistryggð myntkörfulán jafnvel þó bankarnir hafi verið farnir að búa sig undir gengislækkun.

Hann nefnir dæmi af manni sem keypti bíl á 1,6 milljónir fyrir ári og fékk 100 prósenta lán til sjö ára í erlendri mynt. Miðað við greiðsluáætlun sem útbúin var fyrir hann réð hann ágætlega við afborganirnar. „Síðan gerist það í mars að gengið hrynur og á sama tíma hefur lánveitandinn hækkað vexti, því það voru breytilegir vextir á láninu.

Greiðslubyrðin á mánuði hefur hækkað um 30 prósent þannig að hann hafði hug á að reyna að losa sig út úr þessu. Þá er staðan hins vegar sú að lánið er komið upp í 1,8 milljónir, þrátt fyrir að hann hafi greitt samviskusamlega af bílnum í heilt ár. Þó honum tækist að selja bílinn fengi hann aldrei meira en 1,3 milljónir fyrir hann. Þannig að núna er bara spurning hvort hann hefur efni á því að þrauka eða taka á sig hálfrar milljónar skell, takist honum að selja bílinn,“ segir Runólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert