Ferðuðust hvíldarlaust í sólarhring

 Palestínsku flóttakonurnar og börnin þeirra ferðuðust hvíldarlaust í sólarhring áður en þau komu til hingað til lands frá Írak. Sýrlensk yfirvöld vildu ekki leyfa flóttafólkinu að dvelja eina nótt í landinu á leiðinni hingað. Flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli á tólfta tímanum í gærkvöldi. Nokkuð var af konunum dregið og svefngalsi í börnunum. Konurnar eru átta og eru allt frá þrítugasaldri og upp í fimmtugt. Þær  eiga samtals tuttugu og eitt barn á aldrinum 2 til 17 ára. Konurnar flúðu frá Bagdad þar sem þær urðu fyrir ofsóknum. Þær  hafa allar misst eiginmenn sína og hafa undanfarið dvalið í einum illræmdustu flóttamannabúðum í heimi á landamærum Sýrlands og Íraks.

Amal Tamini frá Palestínu sem hefur verið búsett hér á landi um margra ára skeið verður leiðbeinandi kvennanna en þær tala eingöngu arabísku. Hún segir aðstæður kvennanna hafa verið skelfilegar. Í búðunum hafi þær hvorki haft rennandi vatn né rafmagn og ekkert persónulegt svæði fyrir sig. Þær séu fegnar að koma til Íslands og þakklátar íbúum Akraness fyrir að bjóða þær velkomnar. Að sjálfsögðu séu þær þó einnig kvíðnar að takast á við framandi menningu og nýtt tungumál en þær fá stuðning í eitt ár til að aðlaga sig að íslensku samfélagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert