Konur eru 60% nýnema í háskólum á Íslandi

Konur eru 60% nýnema í íslenskum háskólum.
Konur eru 60% nýnema í íslenskum háskólum. mbl.is/Árni Torfason

Konur eru 60% nýnema á háskólastigi á Íslandi, en meðaltal OECD landanna er 54%, að því er segir í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, „Education at a Glance 2008, OECD Indicators".

Hlutfallslega stór hluti nýnema á háskólastigi hér á landi stundar nám í félagsvísindum, viðskiptafræðum, lögfræði og þjónustu  (40% nýnema) og í hugvísindum, listum og menntun (31% nýnema). Konur eru mikill meirihluti nýnema á þessum sviðum og eins í heilbrigðisgreinum. Nám í verkfræði- og byggingagreinum stunda 9% nýnema en þar eru konur 33% nýnema. Aðeins í Danmörku er hlutfall kvenna hærra í þessum greinum, eða 35%. Nýnemar í raunvísindum og landbúnaði eru 6% nýnema. Þar eru konur 59% allra nýnema, sem er næsthæsta hlutfall kvenna innan OECD. Í Portúgal eru konur 60% nýnema í þessum greinum.

Á Íslandi er nettó útskriftarhlutfall í háskólanámi það hæsta sem gerist í OECD löndunum. Nettó útskriftarhlutfall fyrir fyrstu háskólagráðu úr fræðilegu háskólanámi (stig 5A) á Íslandi er 62,8% en meðaltal OECD ríkja er 37,3%. Útskriftarhlutfallið á Íslandi er 86,5% hjá konum og 40,2% hjá körlum. Hvergi í OECD ríkjunum er meiri munur á útskriftarhlutfalli karla og kvenna.

Umfjöllun Hagstofunnar um skýrslu OECD

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert