Kalkþörungar úr Arnarfirði bæta kúafóður í Sádi-Arabíu

Fyrsta heila starfsár Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal er meira en hálfnað. Starfsemin hefur gengið vel þetta ár og verið lyftistöng fyrir staðinn, en ekki hafði verið um auðugan garð að gresja í atvinnumálum staðarins. Þá hefur gengislækkun krónunnar stutt við bakið á fyrirtækinu eins og öðrum útflutningsfyrirtækjum.

Níu manns starfa hjá fyrirtækinu undir forystu Guðmundar Valgeirs Magnússonar framkvæmdastjóra. Sanddæluskipið Perlan dælir seti með kalkþörungum upp úr sjónum úr fjörðum í botni Arnarfjarðar og kemur vestur 2-3 sinnum á ári til að sinna þessu verkefni. Þörungunum er dælt í hráefnisþró eða lón sem útbúið var framan við aðstöðuna á Bíldudal. Þaðan er efninu mokað inn í verksmiðjuna eftir þörfum.

„Við höfum framleitt að jafnaði um 40 tonn af fæðubótarefni á dag og gengið ágætlega“, segir Guðmundur Valgeir. „Varan fer frá okkur til Írlands, þar sem systurfyrirtæki okkar er með mikil tengsl við viðskiptavini og gott vöruhús þaðan sem varan er send áfram.“

Mest af framleiðslunni á Bíldudal hefur farið til Sádi-Arabíu, en einnig til Frakklands og víðar. Í Sádi-Arabíu er efni úr þörungum úr Reykjafirði og af Langanesgrunni notað til að bæta fóður nautgripa. Eins og nafnið ber með sér eru kalþörungarnir ríkir af kalki sem er kúnum nauðsynlegt við mjólkurframleiðsluna og til að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og doða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert