Átök vegna flúðasiglinga

Til átaka kom þegar starfsmenn tveggja flúðasiglingafyrirtækja deildu um afnot af vegi í Skagafirði í gær. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Sauðárkróki voru það starfmenn fyrirtækjanna Bakkaflöt og Hestasport sem bjóða upp á flúðasiglingar, sem tókust þar á.

Bæði fyrirtækin hafa fengið leyfi hjá bóndanum í Villinganesi til að gera veg að ánni. Átökin má hins vegar rekja til þess að starfsmönnum Hestasports var synjað um leyfi til að nota veg Bakkaflatar.

Forráðamenn Bakkaflatar hafa sett hlið á veginn og læst því. Starfsmenn Hestasports brugðust við því með því að brjóta upp lásinn og koma fyrir rútu á veginum. Þegar þeir hugðust sækja hana höfðu starfsmenn Bakkaflatar síðan lagt bílum í veg fyrir rútuna.

Starfsmenn Hestasports fóru með vörubíl á svæðið í gær til að draga bílana í burtu. Eigandi vegarins kom um svipað leyti á staðinn á jeppa og fór svo að vörubílnum var ekið á jeppann. Starfsmenn Bakkaflatar drógu þá vörubílsstjórann út úr bílnum en þar sem vörubíllinn var í bakkgír rann hann aftur á bak á rútuna. Við það brutust út töluverð áflog og var lögregla kölluð á staðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert