Væntir mikils af samstarfi Íslands og Úganda

mbl.is

„Ég vænti mikils af samstarfi landanna,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum sem haldinn var í tilefni af opinberri heimsókn Yoweri K. Museveni, forseta Úganda.

Fram kom á fundinum að markmið heimsóknar Úgandaforseta til Íslands væri einkum að  kynna sér nýtingu jarðhita hérlendis, þróun sjávarútvegs, menntun í upplýsingatækni og beitingu hennar í þágu opinberrar stjórnsýslu. 

Í máli Museveni kom fram að tildrög þess að hann sækir Ísland heim nú sé símtal sem hann átti við Ólaf Ragnar fyrir tveimur árum þar sem þeir ræddu um möguleikana í nýtingu jarðvarma.

Museveni minnti á að Ísland og Úganda ættu það sammerkt að í báðum löndum mætti finna heita hveri. Sagði hann langa hefð fyrir því í Úganda að nota heitu hverina sér til lækninga, en að sú þekking hefði dvínað á síðustu árum og væri í dag af flestum talin bábilja ein. Sagðist hann því afar ánægður með að sjá að Íslendingar stæðu framarlega í því nýta heita hveri í lækningaskyni, en Museveni mun í heimsókn sinni kynna sér starfsemi Bláa lónsins og lækningamiðstöðina þar.

Aðspurður hvernig Úganda gætu lært af reynslu Íslendinga á sviði þróunar sjávarútvegs sagði Museveni ofveiði því miður talsvert vandamál , sérstaklega við strendur Viktoríuvatns, en vatnið á landamæri að og er undir stjórn þriggja landa, Úganda, Tansaníu og Kenýa. 

Aðspurður hvort Úganda styddi framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sagði Museveni það mál órætt milli þeirra forseta. Ólafur Ragnar minnti á að mörg lönd neiti að gefa upp afstöðu sína opinberlega til framboðsins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert