Eggert Haukdal sýknaður

Eggert Haukdal ræðir við Ragnar Aðalsteinsson, lögmann sinn, þegar málið …
Eggert Haukdal ræðir við Ragnar Aðalsteinsson, lögmann sinn, þegar málið var flutt í Hæstarétti í síðustu viku.

Hæstiréttur hefur sýknað Eggert Haukdal, fyrrverandi alþingismann, af ákæru fyrir fjárdrátt með því að hafa sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps dregið sér 500.000 krónur  árið 1996. Hæstiréttur sakfelldi Eggert árið 2001 en féllst síðan á að taka málið upp á ný. 

Málskostnaður fellur á ríkið, þar á meðal málsvarnarlaun Ragnars Aðalsteinssonar, verjanda Eggerts,  4.257.900 krónur, og kostnaður við að afla sérfræðilegrar álitsgerðar svo og mats- og skoðunargerðar, 2.922.318 krónur.

Eggert var á sínum tíma sakfelldur fyrir að hafa látið færa sér til inneignar á viðskiptareikning sinn 500 þúsund krónur, sem höfðu verið gjaldfærðar hjá sveitasjóði sem kostnaður vegna vegagerðar við Þúfuveg í hreppnum, án þess að reikningar lægju þar að baki.

Eggert fór fram á að málið yrði tekið upp að nýju og lagði Hæstiréttur fyrir settan saksóknara í málinu að kveða til tvo óhlutdræga matsmenn til að semja rökstudda matsgerð um nánar tilgreind atriði í ákvörðun réttarins. Í kjölfar matsgerðarinnar og skýrslutöku af matsmönnum varð Hæstiréttur við beiðni E um endurupptöku á dómi Hæstaréttar.

Í niðurstöðu Hæstaréttar í dag segir, að ekki verði talið að þáverandi ríkissaksóknari hefði verið vanhæfur til að fara með málið þrátt fyrir að bróðir hans væri einn af eigendum endurskoðunarskrifstofu þeirrar sem vann ársreikninga Landeyjahrepps og synir hans ynnu hjá fyrirtækinu. Þá lá fyrir í málinu að umræddar 500.000 krónur hefðu verið færðar hreppnum til gjalda í ársreikningi fyrir árið 1996.

Verulegt misræmi var annars vegar milli framburðar fyrrverandi endurskoðanda hreppsins um það hvenær umrædd færsla hefði verið færð til inneignar á viðskiptareikning Eggerts og aðdragandann að því, og framlagðra bókhaldsgagna og niðurstöðu dómkvaddra matsmanna hins vegar. Í ljósi þess að vafi léki á hvort Eggert hefði vitað um færsluna og hvort huglæg skilyrði um ásetning Eggerts, í skilningi almennra hegningarlaga, væru uppfyllt, var það mat meirihluta Hæstaréttar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt Eggerts og var hann því sýknaður af kröfum þess.

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, Benedikt Bogason, dómstjóri, Símon Sigvaldason héraðsdómari, Stefán Már Stefánsson prófessor og Viðar Már Matthíasson prófessor kváðu upp dóminn. Símon skilaði sératkvæði og taldi þær forsendur, sem Hæstiréttur lagði til grundvallar niðurstöðu sinni árið 2001, stæðu óhaggaða, og því ætti að dæma Eggert til sömu refsingar og þá: 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert