Gróðurskemmdir í Svartsengi vegna loftmengunar

Dauður mosi í hrauni í 300 m fjarlægð frá orkuverinu. …
Dauður mosi í hrauni í 300 m fjarlægð frá orkuverinu. Myndin er tekin af vef Náttúrufræðistofnunar.

Náttúrufræðistofnun Íslands segir, að miklar gróðurskemmdir séu í nágrenni við orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og séu skemmdirnar næst verinu og nálægt borteigum. Miðað við útbreiðslu gróðurskemmdanna megi telja öruggt að þær stafi að langmestu leyti af loftmengun.

Fram kemur á vefsíðu stofnunarinnar, að mosinn hraungambri sé mjög viðkvæmur fyrir henni og mun viðkvæmari en flestar háplöntur. Krækilyng virðist t.d. þola þessa mengun nokkuð vel og sé það í samræmi við niðurstöður rannsókna sem farið hafa fram á gróðri við álverið í Straumsvík.

Gróðurskemmdirnar í Svartsengi eru sagðar nokkuð áþekkar þeim sem fram hafa komið við Hellisheiðarvirkjun en þó miklu meiri. Náttúrufræðistofnun segir, að ekki sé vitað til að menn hafi fyrr gefið þessum gróðurskemmdum við Svartsengi mikinn gaum. Þær séu það umfangsmikilar að nauðsynlegt sé að kanna betur hversu útbreiddar þær eru og grafast fyrir um orsakir þeirra.

Vefur Náttúrufræðistofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert