Grunur um hrottalegt líkamlegt ofbeldi

mbl.is/Júlíus

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið yfirheyrður af lögreglu vegna gruns um hrottalegt ofbeldi gagnvart þremur börnum sínum, tveimur stúlkum og dreng sem eru á aldrinum átta til fjórtán ára. Börnin bjuggu hjá föður sínum.

Málið kom inn á borð rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins frá barnaverndarnefnd í sveitarfélaginu þar sem brotin komust upp. Líkt og í fréttum Stöðvar 2, þar sem fyrst var greint frá málinu á miðvikudagskvöld, verður bæjarfélagið þar sem maðurinn hefur búið með börnum sínum ekki gefið upp vegna hugsanlegra afleiðinga þess fyrir fórnarlömb ofbeldisins, að öðru leyti en að það er á höfuðborgarsvæðinu.

Börnin búa nú hjá ömmu sinni og afa. Móðir þeirra hefur ekki búið á heimilinu um nokkurt skeið en hún hefur átt við vímuefnavanda að stríða og því hafa börnin búið hjá föður sínum einum.

Samkvæmt heimildum 24 stunda er málið litið alvarlegum augum. Áverkar eftir eggvopn voru á einu barnanna en talið er að hnífum hafi verið kastað í það. Þá er einnig uppi grunur um langvarandi hrottalegt líkamlegt ofbeldi. Engar vísbendingar hafa komið fram um að börnin hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu föður síns. Því hefur Barnahús ekki haft afskipti af málinu en einungis kynferðislegt ofbeldi kemur inn á borð þess.

Rannsókn á málinu er stutt á veg komin og verst lögregla frekari frétta af því. Karlmaðurinn sem grunaður er um að hafa beitt börn sín ofbeldi er ekki í haldi í lögreglu þar sem vísbendingar barnaverndarnefndar um hrottalegt ofbeldi gagnvart börnunum hafa ekki verið rannsakaðar að fullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert