Fótbolti og pumpa í skiptum fyrir atkvæði

Tólf fotboltar og pumpa voru send til Tuvalu, smáeyjar í …
Tólf fotboltar og pumpa voru send til Tuvalu, smáeyjar í Kyrrahafi. Reuters

Tyrkir leyna því ekkert, að þeir leggja mikla áherslu á að ná kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í október þegar kosið verður milli þeirra, Íslendinga og Austurríkismanna um tvö sæti. Fram kom í tyrkneska blaðinu Hürryet nýlega, að Tyrkir geri þjóðum ýmsa greiða um þessar mundir í þeirri von að fá á móti atkvæði þeirra í öryggisráðskosningunni.

Auðvitað hafa allir hlutir sitt verð, segir blaðamaður Hürryet, jafnvel atkvæði sem greidd eru á allsherjarþingi SÞ. Þegar stóru löndin eiga í hlut þýði þetta aðallega að þau vilja fá stuðning í öðrum málum á allsherjarþinginu. En þegar um er að ræða smærri ríki horfi málið öðru vísi við. Minni ríkin biðji Tyrki um ýmislegt smálegt, svo sem fótbolta, eða hesthús.

Síðasta dæmið sé af smáþjóðinni Tuvalu. Þegar fulltrúi Tyrklands kom að leita hófanna um atkvæði sögðu Tuvalumenn: „Börnunum okkar finnst gaman að leika knattspyrnu: En við eigum ekki mjög marga fótbolta af réttri stærð..." Stjórnvöld í Ankara skildu fyrr en skall í tönnum og því tyrkneska sendiráði, sem er næst Tuvalu, var skipað að útvega strax nokkra fótbolta - og pumpu.

Blaðamaður  Hürryet segir síðan, að nokkur ríki hafi óskað eftir því að þar verði byggð hesthús en önnur að þeim verði útvegaðir embættisbílar. Og Tyrkir uppfylli þessar óskir fljótt og vel.

Eftirfarandi dæmi eru síðan nefnd:

Palau vildi fá drossíu svo hægt væri að taka vel á móti opinberum gestum. Í Simbabve byggðu Tyrkir markaðstorg. Eyþjóðirnar Antigua, Dominica, St Lucia, St Vincent og St Kitts fengu 50 tölvur hver. Vatnshreinsistöðvar voru reistar í Niger og Eþíópíu og frárennsliskerfi lagt. Einnig voru lyf og ýmis kennslugögn send til landsins. Austur-Tímor, Filippseyjar og Kírgístan fengu einnig lyf, Til Gana fóru sérfræðingar í opinberri stjórnsýslu til að halda námskeið. Tyrkneski herinn aðstoðaði við herþjálfun í Gambíu, Eþíópíu, Súdan og Angóla. Ræktarlönd voru brotin í Máritaníu og sjúkrahús og skólar byggðir í Afganistan.

Blaðamaðurinn segir, að þrátt fyrir þessa aðstoð alla séu atkvæðin ekki tryggð þar sem atkvæðagreiðslan er leynileg. Og tyrkneska utanríkisráðuneytið reyni einnig að gæta þess, að ekki sé hægt að tengja greiðana við atkvæðagreiðsluna hjá SÞ. Hins vegar sé útlitið þar gott og Tyrkir virðist öruggir með sætið í öryggisráðinu.

Það dregur hins vegar lítillega úr trúverðugleika blaðamanns Hürryet, að hann heldur að Tyrkir þurfi að fást við Austurríkismenn og Íra, sem hann segir hafa reynt að tryggja sér atkvæði lítilla eyþjóða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert