Greiðslubyrði þyngist að ári

Greiðslubyrði 5500 íbúðalána gæti þyngst um 20 prósent þegar þau verða tekin til endurskoðunar á næsta ári ef verðtryggðir vextir lækka ekki frá því sem nú er. Árið 2004 voru í fyrsta sinn veitt lán hérlendis með ákvæði um að vextir yrðu endurskoðaðir á fimm ára fresti.

Edda Rós Karlsdóttir er forstöðumaður greiningarsviðs Landsbankans. Hún segir mikilvægt að horfa til þessa nú þegar horfur eru á vaxandi atvinnuleysi. Verði farið í aðgerðir til að hjálpa skuldugum heimilum segir hún mikilvægt að skoða þann hóp sérstaklega.

„Þetta er mikill minnihluti lána hér á landi. Hér er algengara að lánin séu með föstum vöxtum,“ segir Edda Rós. Hún telur líklegt að þó vextirnir hækki á næsta ári lækki þeir þegar frá líður.

„Þegar fólk velur lán með endurskoðunarákvæði vaxta er það að taka vissa áhættu. Núna er útlit fyrir að greiðslubyrði hækki við endurskoðunina 2009 og á fyrri hluta árs 2010 en ef vextir lækka hratt gæti greiðslubyrði lækkað hjá þeim sem eru með endurskoðun á seinni hluta ársins 2010 eða 2011. Þetta er alltaf happdrætti.

Misjafnt er eftir lánastofnunum hvort vextir eru fastir eða breytilegir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert