Gaskútur sprakk í bifreið - vegfarandi vann hetjudáð

Mikill eldur logaði í öðrum bílnum.
Mikill eldur logaði í öðrum bílnum. mynd/Reynir Örn

Karlmaður á fertugsaldri vann hetjudáð þegar hann kom öðrum manni til bjargar sem var í brennandi bíl á Reykjavegi við Laugardal í Reykjavík síðdegis í dag. Lögreglan segir að vegfarandinn hafi bjargað lífi mannsins. Tveir bílar urðu alelda og eru gjörónýtir.

Að sögn lögreglu sprakk gaskútur í annarri bifreiðinni. Rúðurnar splundruðust og hlaut ökumaðurinn, sem er á sextugsaldri, brunasár. Bifreiðin varð alelda og teygði eldurinn sig yfir í aðra bifreið, sem ók við hliðina á þeirri fyrri. Ökumaðurinn í seinni bifreiðinni var fljótur að átta sig á aðstæðum. Hann fór út úr sínum bíl, sem var byrjaður að loga, og kom hinum manninum til aðstoðar, en honum tókst að draga manninn út úr logandi bifreiðinni. 

Maðurinn sem brenndist var fluttur á sjúkrahús, en er ekki lífshættulega slasaður. Bjargvætturinn slapp ómeiddur, segir lögregla.

Ekki er vitað hvers vegna kúturinn sprakk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert