Dregur úr kaupmætti - atvinnuleysi eykst

Fjármálaráðuneytið spáir því að landsframleiðsla muni dragast saman um 1,6% á næsta ári en hagvöxtur verði árin 2010 til 2012. Þá er því spáð að verðlag hækki um 5,7% á næsta ári, kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist saman um 1,4% og atvinnuleysi verið 2,7%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá ráðuneytisins mun verðbólga hjaðna hratt á næstu árum og verða á bilinu 2,5-2,8% á seinni hluta tímabilsins. Frá árinu 2010 er því spáð að kaupmáttur fari vaxandi og hagkerfið komist í jafnvægi.

Því er spáð að þjóðarútgjöld muni lækka um 2,5% að magni yfir næsta ári, sem megi að stærstum hluta rekja til þess að einkaneysla dregist saman um 4,7% á árinu. Mikill samdráttur einkaneyslu helgist af því að kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist saman annað árið í röð.

Fasteignaverði er spáð áframhaldandi lækkun að raunvirði auk þess sem gengi krónunnar verði veikt fram eftir ári en það þýði að  kaupmáttur heimilanna erlendis verði áfram mun veikari en á hágengistímanum.

Áætlað er að viðskiptahallinn verði 16,8% á þessu ári. Það mun hins vegar draga hratt úr honum á næsta ári og er ætlað að viðskiptahallinn verði 8,2% árið 2009, og heldur sú þróun áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert