Færa þarf þjóðinni 1. desember á ný

Ólafur Ragnar Grímsson kemur til þingsetningar Alþingis.
Ólafur Ragnar Grímsson kemur til þingsetningar Alþingis.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði þegar hann setti Alþingi í dag, að færa þurfi þjóðinni fullveldisdaginn 1. desember á ný. Hét hann á Alþingi að taka forustu í þessum efnum og veita deginum þá virðingu sem honum bæri.

Ólafur Ragnar sagði að þjóðinni væri hollt, nú þegar hún sigldi um úfinn sjó, öldurót væri í efnahagsmálum, bæði hér heima og erlendis, að sækja lærdóma í baráttuna fyrir þeim sigrum í sögu landsins sem reynst hafi einna stærstir.

Hann rifjaði upp 1. desember 1918 þegar Ísland fékk fullveldi og sagði það hafa verið sigurdag, hinn merkasta á vegferð þjóðarinnar og deildi með 17. júní öndvegi í sjálfstæðissögu Íslendinga.

„Hvernig má það þá vera að hann hefur smátt og smátt vikið úr hugum okkar; orðið hversdagslegur, glatað hátíðarbrag – jafnvel skólar, sem lengi vel minntust hans, eru flestir hættir að veita honum sérstakan sess? Höfum við efni á að glata slíkum dögum?" spurði Ólafur Ragnar.

„Við þurfum að færa þjóðinni 1. desember á ný; sameinast um atburðaskrá helgaða baráttunni sem dagurinn táknar og nýta hann um leið til að líta  fram á veg, meta stöðu þjóðarinnar í ljósi hugsjónanna sem gerðu fullveldisdaginn 1. desember 1918 að einstæðri sigurstundu Íslendinga.  Oft var þörf en nú og á komandi tímum er brýn nauðsyn að við eignumst slíkan samræðuvettvang, umræðufarveg þar sem grunngildi Íslendinga kallast á við verkefni dagsins, vandamálin sem bíða lausnar. Ég heiti á Alþingi að taka nú forystu í þessum efnum, veita 1. desember þá virðingu sem honum ber og gera það í tæka tíð fyrir aldarafmæli fullveldisins 2018," sagði forsetinn.

Í lok ræðu sinnar sagði hann að  þegar lærdómar væru dregnir af langvarandi baráttu fyrir fullveldi og forræði yfir miðum landsins „sést glöggt að vandamálin sem nú kalla á farsælar lausnir eru á engan hátt meiri að vöxtum en erfiðleikar á fyrri tímum, gefa hvorki tilefni til uppgjafar né örþrifaráða. Þvert á móti er þjóðin nú ríkulega búin að auðlindum, fjölþættri menntun og margþættri reynslu, nýtur velvildar hjá öllum ríkjum."

Þingsetningarræða Ólafs Ragnars Grímssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert