Dræm uppskera af Göngu til góðs

Þessar ungu stúlkur „Gengu til góðs“ í gæmorgun.
Þessar ungu stúlkur „Gengu til góðs“ í gæmorgun. mbl.is/Ómar

Mun minna virðist hafa safnast í söfnun Rauð krossins Göngum til góðs í gær en í sams konar átaki fyrir tveimur árum. Samkvæmt upplýsingum Sólveigar Ólafsdóttur, sviðsstjóra Rauða krossins, liggja endanlegar söfnunartölur fyrir landið allt ekki fyrir en á höfuðborgarsvæðinu söfnuðust átta milljónir króna.

Sólveig sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að ekki lægju fyrir upplýsingar um það hversu mikið hefði safnast úti á landi og að ekki væri von á þeim upplýsingum fyrr en eftir helgi.

Er síðast var Gengið til góðs fyrir tveimur árum söfnuðust um 40 milljónir króna og höfðu þá um þrjátíu milljónir safnast þegar talið hafði verið upp úr jafn stórum hluta söfnunarbauka og nú. 

Sólveig segir að sjálfboðaliðar hafi ekki orðið varir við annað en að fólk væri reiðubúið til að gefa í söfnunina en að það hefði haft áhrif að ekki hafi fengist nógu megir sjálfboðaliðar til að ganga í hús. Einungis 1.000 sjálfboðaliðar tóku þátt í átakinu en Sólveig segir forsvarsmenn söfnunarinnar hafa vitað fyrir fram að 2.000 sjálfboðaliða þyrfti til að ganga í öll hús. Uppskeran virðist vera í hlutfalli við það.

„Við vissum náttúrulega að það var á brattann að sækja svona í svörtustu vikunni í efnahagslífi landsins í áratugi," sagði hún. „En við vonuðumst þó til að fólk bæri tilbúið til að sýna samstöðu í verki og ganga fyrir góðan málstað í góða veðrinu í gær. Það kom í raun á óvart hversu fólk var tilbúið að gefa miðað við ástandið og hversu erfitt var að fá sjálfboðaliða."

Sólveig minnir á að söfnunarsímar vegna söfnunarinnar verða opnir út þessa viku og hvetur þá sem ekki fengu heimsókn frá sjálfboðaliðum til að nýta sér þá.

Söfnunarsímarnir eru 903 1010, 903 3030 og 903 5050 en ef hringt er í þá dragast frá kr. 1000, kr. 3000 eða kr. 5000 frá næsta símreikningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert