,,Mikill léttir að hafa fast land undir fótum"

Mikill léttir ríkir meðal þeirra starfsmanna Landsbanka Íslands sem ekki fá vinnu í nýja bankanum. Skilanefnd bankans hitti fulltrúa starfsmanna nú skömmu eftir hádegið og var þeim tilkynnt að staðið yrði við alla kjarasamninga.


„Starfsmenn voru með tvo fulltrúa á þessum fundi með skilanefnd og fengu þeir þau skilaboð að kjarasamningar yrðu virtir að fullu hvað starfslok varðar,”segir Magnús Guðmundsson, en hann ásamt öðrum stóð fyrir stofnun Hagsmunafélags starfsfólks Landsbanka Íslands í morgun og var félaginu ætlað að standa vörð um hagsmuni starfsfólks sem ekki fá vinnu í nýja bankanum. „Það er mikill léttir að hafa fastara land undir fótum, fyrir þennan fund í dag var hópurinn ansi hnípinn,” sagði hann.

Þrátt fyrir að hagsmunir starfsmanna virðist nú tryggðir segir Magnús að ekki standi til að hætta við félagið, hópurinn sé góður, og ætlar hann að hittast í næstu viku. Þarna sé saman komið kraftmikið fólk með mikla þekkingu og tilvalið að nýta mannauðinn til að vinna að einhverju jákvæðu og góðu.

Magnús tók það fram að reiði starfsfólks beindist ekki gegn millistjórnendum bankans eða þeim sem nýverið fengu hærri stjórnunarstöður heldur þeim sem færu hagstjórn landsins. Þar væri víða pottur brotinn.


Magnús Guðmundsson.
Magnús Guðmundsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert