Sjálfstæðisflokkurinn fundar um bankakreppuna

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Í ályktun flokksráðs- og formannafundar Sjálfstæðisflokksins í dag segir m.a. að afar  brýnt sé að ríkisstjórnin, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins, Seðlabankinn og þjóðin öll beiti sér af alefli til þess að aðstæður skapist sem fyrst til lækkunar stýrivaxta svo að íslenskt atvinnulíf geti starfað með eðlilegum hætti. Jafnframt sé mikilvægt að ná tökum á gengi íslensku krónunnar og styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins með öllum tiltækum ráðum.

Þá segir að Sjálfstæðisflokkurinn leggi mikla áherslu á að atvinnustig í landinu haldist hátt og að öllum ráðum verði beitt til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi aukist. Brýnt sé að farið verði markvisst yfir árangur peningamálastefnunnar undanfarin ár og að regluverk um fjármálamarkaði verði tekið til endurskoðunar og styrkt í ljósi atburða undanfarinna vikna og mánaða.

Um 300 manns sóttu fundinn, bæði formenn flokksfélaga og trúnaðarmenn um land allt. Fundinum lauk upp úr klukkan þrjú í dag með samþykkt stjórnmálaályktunar fundarins, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins, mælti fyrir.

Í ályktuninni er Geir H. Haarde forsætisráðherra þökkuð frábær forysta hans og leiðsögn og  lýst  eindregnum stuðningi við hann á þessum óvenjulegu og erfiðu tímum, eins og það er orðað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert