„Brotsjórinn bylur á okkur öllum“

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is/Skapti

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, boðaði fólki umhyggjusemi í predikun sinni í Seltjarnarneskirkju í gær. Þá áréttaði biskup að nú væri ekki rétti tíminn til að leita sökudólga heldur væri brýnast að sýna samstöðu.

„Nú er tími umhyggju og samstöðu. Síðar kemur að tíma uppgjörsins, er reikningar verða gerðir upp og sagan skráð. Gætum þess að stund sannleikans verði einnig tími sáttargjörðar. Leitum ekki sökudólga og blóraböggla! Nú þurfum við öll að standa saman, og hlynna hvert að öðru og að þeim gildum sem við eigum best og ein munu bera okkur yfir þessa erfiðleika og ein megna að leggja undirstöður undir heilbrigt samfélag á Íslandi.“

Biskup sagði Íslendinga hafa upplifað ótrúlega örlagadaga. „Við finnum öll til ótta og öryggisleysis, við erum eiginlega í losti og vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið.“ Í máli sínu sagði biskup jafnframt að kreppan hefði sýnt okkur hvernig meiri auður myndaðist en nokkur gat ímyndað sér. Það hefði þó ekki gerst vegna þess að hér hefðu uppgötvast áður óþekktar auðlindir sem nýttar hefðu verið af hyggjusemi. „Nei, öllu heldur fyrir ótrúlega heppni í því ævintýralega spilavíti sem heimurinn var orðinn og þar sem því var heitið að allir myndu vinna. Það er sem hafi verið með einhverjum hætti klippt á samhengið milli fjármuna og raunverulegra verðmæta. Goðsagan leysti þau af hólmi. Og nú horfum við yfir rústirnar og þetta er allt eitthvað svo undur óraunverulegt. “

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert