4-5 milljarðar vegna lóðaskila

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir erfiðleika framundan í …
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir erfiðleika framundan í rekstri sveitarfélaga í landinu. ÞÖK

Kostnaður Kópavogsbæjar vegna mikilla innskila á lóðum nemur fjórum til fimm milljörðum króna. Þetta staðfesti Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, við mbl.is í kvöld. Hann segir efnahagsvandann koma hart niður á starfsemi sveitarfélaga. „Ég held að það sé alveg óhætt að tala um hamfarir í þessu samhengi. Ég hef nú lifað tímanna tvenna í þessu en ég held að þessi niðursveifla núna, eins hröð og hún er, sé með þeim dýpri sem ég minnist,“ sagði Gunnar.

Gunnar segir Kópavogsbæ vera vel í stakk búinn til þess að mæta erfiðu rekstrarumhverfi þar sem bærinn hafi verið rekinn með rekstrarafgangi undanfarin ár. „Við erum að mörgu leyti í góðri stöðu til þess að takast á við þetta. En því er ekki að leyna að beinn kostnaður útaf þessari niðursveiflu er mikill. Það er ekkert hægt að gera annað en að sníða sér stakk eftir vexti og reka bæjarfélagið í takt við stöðuna eins og hún er og verður.“

Að sögn Gunnars hefur verið skilað lóðum í næstum öllum götum sem úthlutað hefur verið frá árinu 2005. Mörgum lóðum hefur verið skilað inn  í Vatnsendahlíð og einnig í Rjúpnahæð. Þá hefur lóðum undir atvinnustarfsemi einnig verið skilað inn en þær eru þó ekki margar, segir Gunnar.

Gunnar segir bæjarfélagið þurfa að mæta kostnaðinum vegna innskila á lóðunum með láni frá lánasjóði íslenskra sveitarfélaga. Unnið er að því. „Við gerðum ráð fyrir því að fá inn 3,5 milljarða í úthlutunartekjur á þessu ári en mér finnst líklegt að þær verði í kringum milljarð. Í ofan á lag bætast síðan innskil á lóðum sem úthlutað var árin á undan og samtals nemur þetta um fjórum til fimm milljörðum. Við njótum þess að vera vel rekið bæjarfélag. En það er erfið staða framundan.“

Forsendur fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar verða til umræðu í bæjarráði Kópavogs í næstu viku og verður þar rætt um leiðir til þess að mæta breyttu rekstrarumhverfi sveitarfélaga, að sögn Gunnars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert