Tökum tillit til aðstæðna

Erna Indriðadóttir segir Alcoa hér á landi ekki hafa farið …
Erna Indriðadóttir segir Alcoa hér á landi ekki hafa farið varhluta af þeim miklu sveiflum sem eiga sér stað í efnahagslífi heimsins. mbl.is

„Við höldum ótrauð áfram en vitaskuld þurfa fyrirtæki alltaf að taka tillit til aðstæðna á mörkuðum hverju sinni,“ segir Erna Indriðadóttir, talsmaður Alcoa á Íslandi, aðspurð um hvort miklar verðlækkanir á áli að undanförnu muni hafa áhrif á starf Alcoa hér á landi. Alcoa er með starfsemi á Reyðarfirði og vinnur að því að koma upp álveri við Húsavík.

Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað um 37 prósent á þremur mánuðum. Það var 3.300 dollarar í júlí á þessu ári en er nú komið niður í 2.100 dollara og hefur ekki verið lægra í þrjú ár.

Álfyrirtæki hafa brugðist við stöðunni með því að hagræða og fresta verkefnum, að því er greint hefur verið frá í erlendum fjölmiðlum. „Sum fyrirtæki hafa verið bregðast við með því að fresta verkefnum og hagræða eins og kostur er. Alcoa hefur gert það en vill halda sínu starfi áfram samkvæmt áætlunum hér á landi. Álverðið hefur hækkað hratt á undanförnum árum og fór í hæstu hæðir í sumar. Núna er það lækka og þetta eru sveiflur sem stór fyrirtæki búa alltaf við. Af umræðunni hér á Íslandi mætti stundum halda að efnahagsvandamál væru bundin við Ísland en svo er alls ekki. Það eru miklar breytingar að eiga sér stað á skömmum tíma og fyrir þeim finna fyrirtæki og einstaklingar út um allan heim.“

Erna segir vinnu vegna fyrirhugaðra álversframkvæmda á Bakka við Húsavík ganga vel. Alcoa sendi fyrr í dag sinn hluta af matsáætlun til Skipulagsstofnunar. Matsáætlunin er hluti af vinnu við sameiginlegt umhverfismat sem stendur nú yfir. Óljóst er hvenær þeirri vinnu lýkur en að sögn Ernu hefur vinna við það gengið hratt og vel. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert