Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, sagðist í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag hafa traustar heimildir fyrir því frá vinum sínum í Sjálfstæðisflokknum, að seðlabankastjóri væri harður gegn því að Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna fjármálakreppunnar hér á landi.

„Ef þetta er rétt þá er það ekki bara að hann axli ekki ábyrgð á hruni sjálfstæðrar peningastefnu, sem hann var ábyrgur fyrir, og hruni ríkisfjármálastefnu, sem hann var líka ábyrgur fyrir, heldur er hann að þvælast fyrir á strandstaðnum líka. Þetta gengur ekki," sagði Jón Baldvin.

Hann bætti við, að ekki væri hægt að koma fram fyrir erlenda skuldunauta og stofnanir með þennan sama seðlabankastjóra. Það yrði að skipta um áhöfn í Seðlabankanum ef takast ætti að byggja upp traust á ný.  

Jón Baldvin sagði að Íslendingar ættu engan annan kost en að ná samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og leggja fram trúverðuga áætlun um lausnir. Annars yrðu Íslendingar áfram á strandstaðnum að ausa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert