Lögreglumenn áhyggjufullir

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna. Ómar Óskarsson

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir lögreglumenn hafa verulegar áhyggjur af auknu ofbeldi í þeirra garð.  Í nótt réðist hópur manna á lögreglumenn sem voru að sinna hávaðaútkalli í Breiðholti auk þess sem lögreglumaður á Sauðárkróki missti nærri því fingurinn í árás í nótt.

„Við höfum áhyggjur af ástandinu og óttumst að það eigi eftir að versna enn frekar miðað við tíðindin af efnahagsástandi þjóðarinnar,“ segir Snorri. Áfallið sem fólk eigi eftir að verða fyrir í landinu sé smám saman að koma í ljós, með auknu atvinnuleysi og eignamissi eigi reiði fólks væntanlega eftir að brjótast fram á einn eða annan hátt. „Álagið á því væntanlega eftir að aukast nokkuð,“ segir Snorri.

Snorri segir að aukaliður sem bætt var í hegningarlögin og hafi átt að verða til þess að harðar yrði tekið á þeim sem fremja brot á opinberum starfsmönnum hafi ekki skilað tilskildum áhrifum. Dómar sem falli í slíkum málum séu ekki nægilega harðir.

Snorri segir jafnframt að mannekla sé víðast hvar mikil í lögregluumdæmunum, víða á landsbyggðinni sé einn maður á vakt hverju sinni, sem sé ávísun á slys.

Hann segir lögreglumenn nú með lausa samninga og séu því í reglulegum samskiptum við yfirvöld. Ekki sé útilokað að öryggismál lögregluþjóna verði tekin upp á þeim fundum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert