Vill senda ráðamenn á tungumálanámskeið

Brynhildur Pétursdóttir, ritstjóri Neytendablaðsins
Brynhildur Pétursdóttir, ritstjóri Neytendablaðsins


Brynhildur Pétursdóttir, ritstjóri Neytendablaðsins, vill senda ráðamenn íslensku þjóðarinnar á málanámskeið og að það mætti nota eitthvað af þeim peningum sem fara í utanríkisþjónusta í tungumálanámskeið fyrir ráðherra og æðstu menn. Jafnframt ætti að senda þá á námskeið í almennum mannasiðum, að því er fram kemur í pistli hennar á vef Neytendasamtakanna.

„Íslendingar eiga til að ýkja málakunnáttu sína, sérstaklega þegar kemur að ensku. Við teljum okkur þokkalega fær í því tungumáli en svo er því miður ekki alltaf. Sé íslenski framburðurinn í aðalhlutverki og áherslur á vitlausum stöðum gæti fólk allt eins verið að tala kínversku.

Grunar að aðild á lista yfir viljugar þjóðir hafi verið á misskilningi byggð

Íslenska ríkið eyðir háum fjárhæðum í utanríkisþjónustuna. Það er auðvitað mikilvægt að halda uppi góðum samskiptum við aðrar þjóðir en ég held að það mætti nota eitthvað af peningunum í að senda ráðherra og æðstu menn á námskeið í erlendum tungumálum og í almennum mannasiðum.

Ég hef setið fyrirlestra þar sem ráðherrar hafa haldið ræður á erlendum tungumálum og það er ekki alltaf þægilegt að sitja undir slíku. Samt hikar þetta fólk ekki við að eiga í allskyns samtölum við erlenda ráðamenn sem skilja kannski ekkert hvað verið er að segja og kinka bara kurteislega kolli. Þetta hefur kannski sloppið hingað til enda samtölin ekki það mikilvæg en þegar þjóðin stefnir í þrot og umræðuefnið þess eðlis að við höfum ekki efni á neinum misskilningi er þetta auðvitað grafalvarlegt mál.

Ef kjörnir fulltrúar hafa ekki fullt vald á erlendum tungumálum eiga þeir að hafa túlk sér við hlið. Það sama gildir auðvitað um embættismenn sem eiga í samskiptum við aðrar þjóðir. Það er ekkert skammarlegt við það nema síður sé. Margir erlendir þjóðhöfðingjar eru alltaf með túlk enda ekki hægt að gera ráð fyrir að þeir tali reiprennandi önnur tungumál.

Mig hefur alltaf grunað að aðild okkar á lista viljugra þjóða í Íraksstríðinu hafi verið á misskilningi byggð og skorti á tungumálakunnáttu. Sá sem svaraði í símann hafi varla skilið hvað var á seyði og ekki geta gert sig skiljanlegan. Það hafi eitthvað verið talað um „a list“ og „friends“ og það hljómaði svo sem nógu sakleysislega. Þegar í ljós kom hvað var í rauninni um að vera var of seint að hætta við og því hafi verið reynt að klóra í bakkann," segir Brynhildur.

Skildu fjármálaráðherrarnir hvorn annan

Hún bætir því að maður hljóti að velta fyrir sér hvernig samtal seðlabankastjóra og rússneska sendiherrans hafi farið fram. Báðir aðilar voru öruggleg að tala annað tungumál en sitt eigið og því ljóst að margt getur misfarist.

„Hafi ég skilið fréttir rétt átti Árni Mathiesen fjármálaráðherra símtal við Darling breska fjármálaráðherrann deginum áður en Gordon Brown missti sig. Það væri afar fróðlegt að heyra upptöku af símtalinu því hafi Árni fullvissað bresk stjórnvöld um að þau hefðu ekkert að óttast eru viðbrögð Breta algerlega óafsakanleg. Stóra spurningin er; skildu fjármálaráðherrarnir hvorn annan?

Ég skil reyndar ekki af hverju ráðamenn  nota ekki frekar tölvupósta en símtöl. Það er þá hægt að glugga í orðabók ef maður er að vandræðast með orð og hættan á misskilningi verður minni. Símtölum á milli landa fylgja líka oft skruðningar og truflanir sem eykur enn hættuna á misskilningi. Árni hefði betur sent Darling tölvupóst með skýrum skilaboðum og að sjálfsögðu átti að senda afrit á Gordon Brown.

Eftir atburði síðustu vikna og mánaða hef ég verulegar áhyggjur af því að þeir sem fara með völdin í landinu séu ekki starfi sínu vaxnir. Vissulega er staðan erfið og ekki öfundsvert fyrir ráðamenn að finna leið út úr glundroðanum en það er eins og mönnum séu alveg ótrúlega mislagðar hendur. Þá eigum við víst ekki lengur neinar vinaþjóðir og skyldi kannski engan undra. Iðnaðarráðherra lét hafa eftir sér í viðtali að Bandaríkjamenn hafi sent okkur fingurinn af því þeir neita okkur um lán (kannski skildu þeir ekki umsóknina!)

Til að lágmarka skaðann er best að íslenskir ráðamenn láti sem minnst hafa eftir sér. Síðan óska ég eftir þeirri nýbreytni fyrir næstu kosningar að frambjóðendur verði látnir svara spurningum á erlendum tungumálum," að því er segir á vef Neytendasamtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert