Merlin A/S sækir um greiðslustöðvun

mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Stjórn Merlin hefur samþykkt að óska eftir greiðslustöðvun fyrir félagið. Merlin er dótturfélag Árdegis, félags Sverris Berg Steinarssonar, sem á og rekur  verslanir Next og Skífunnar í sjálfstæðum  dótturfélögum og verslanir BT í systurfélagi. Í tilkynningu frá Sverri Berg segir að ekki sé vitað með vissu um endanleg áhrif væntanlegs gjaldþrots Merlin á starfsemi móðurfélagsins Árdegi  og starfsemi þess á Íslandi.

Nú um næstu mánaðamót eru nákvæmlega þrjú ár liðin frá kaupum Árdegis á raftækjaverslunum Merlin í Danmörku. Félagið hafði verið rekið með miklu tapi um margra ára skeið en í félaginu voru að mati Árdegis mikil verðmæti og gríðarleg tækifæri. Við tók þrotlaus vinna við endurskipulagningu og breytingar á starfseminni sem áttu að koma þessu áttatíu ára félagi í gott form að nýju. Þetta var þriggja ára verkefni og fyrir lá nákvæm áætlun um verkið.

Í tilkynningu segir að í öllum meginatriðum hafi sú áætlun gengið fullkomlega eftir. „Fjármálakreppan sem hófst í upphafi ársins hafði hins vegar slæm áhrif á fjármögnun og rekstur Merlin A/S og mjög þrengdi að varðandi vöruúttektir vegna lækkunnar lánshæfismats íslenskra aðila almennt og þeirrar auknu óvissu sem skapaðist á fjármálamörkuðum.“

Á miðju ári voru síðan framkvæmdar síðustu breytingar sem fyrirhugaðar voru á rekstrinum og hyllti undir fyrstu jákvæðu rekstrarniðurstöðu Merlin A/S í tólf ár. Áætlanir fyrir næsta ár gerðu auk þess ráð fyrir viðunandi hagnaði þrátt fyrir fyrirséðar þrengingar á smásölumarkaði í Danmörku.

Í ágúst síðastliðnum var hafist handa við að selja félagið að hluta eða öllu leiti enda hafði Árdegi ítrekað fengið fyrirspurnir um hug þess til að selja Merlin. Þær verðhugmyndir sem nefndar voru í því sambandi voru allar mjög velviðunandi. Árdegi réð danskt ráðgjafafyrirtæki til að annast söluna. Eftir kynningar á Merlin sem fjárfestingakosti var ákveðið að halda áfram viðræðum við tvo aðila sem báðir voru á sama markaði og Merlin. Báðir þessir aðilar komu með skilyrt verðtilboð sem var mjög góð og var í framhaldinu ákveðið að hefja nánari viðræður við annan aðilann og gert ráð fyrir sölu fyrir miðjan október.

Í tilkynningu Sverris Berg segir að við fall íslensku bankana hafi fótunum verið kippt undan söluferlinu. Fjárhagslegur trúverðuleiki hafi gufað upp á einni nóttu. Þau fyrirtæki sem tryggja birgja Merlin fyrir úttektum felldu sínar tryggingar niður að fullu og algjört stopp varð á afhendingu vara í verslanir fyrirtækisins.

„Í slíkri stöðu blæðir fyrirtækjum fljótt út ef ekkert er að gert.  Fullkominn óvissa um stöðu banka og efnahagsmála á Íslandi gerði það að verkum að báðir þeir aðilar sem verið var að ræða við um kaup á Merlin drógu sig til hlés og ljóst var að félagið var komið í algjöra sjálfheldu. Allt var reynt til þess að bjarga málum en ljóst að staðan var nánast vonlaus. Þó svo að fjármagn hefði verið til staðar til að bjarga málum tímabundið þá gerði stopp í gjaldeyrisviðskiptum milli Íslands og annarra landa það ókleyft að senda aðstoð,“ segir Sverrir Berg Steinarsson í tilkynningunni.

Samhliða ósk um greiðslustöðvun verður unnið að því að tryggja áframhaldandi rekstur verslana fyrirtækisins og framtíð starfsmanna með sölu eigna til Elbodan a/s sem meðal annars á og rekur verslanir Expert í Danmörku. Ljóst er að ekki verður af sölu á félaginu í heild eins og til stóð og er tapið vegna þessa gríðarlegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert