Bílaflotinn seldur til Noregs?

Porsche-bílar voru vinsælir á Íslandi en ei meir
Porsche-bílar voru vinsælir á Íslandi en ei meir mbl.is/Jim Smart

Íslendingar reyna nú í örvæntingu að losa sig við bílana sína, og Norðmenn standa í röðum til að kaupa þá, að því er fram kemur á fréttavef norska blaðsins Bergensavisen. Bergens Avisen segir, að norskur bílasali sé nú á Íslandi og ætli að kaupa allt að 100 notaða bíla og flytja til Noregs.

Þá séu 180 Porsche-bílar skráðir til sölu á vefnum Bílasölur.is fyrir spottprís

Til að undirstrika neyslubrjálæði Íslendinga sem sé nú að líða undir lok nefnir blaðið til samanburðar norska auglýsingavefinn Finn.no, þar sem eru skráðir 30 Porsch-bílar í Hordaland sýslu, en þar eru íbúar um 200.000 fleiri en íslenska þjóðin. Sagt er að Íslendingar hafi lifað langt umfram efni undanfarið og hamist nú við að selja bílaflotann.

Norski bílasalinn Trond Sandven frá Bergen hefur að sögn blaðsins mikinn áhuga á því að flytja notaða bíla frá Íslandi til Noregs. Fram kemur að hann og fleiri norskir fjárfestar standi nú í röðum til að kaupa ódýra bíla og tæki frá Íslandi, enda sé það um helmingi hagstæðara nú eftir fall íslensku krónunnar. Sandven segist hafa fengið nokkur frábær tilboð á lúxusbílum frá Íslandi, en hinsvegar sé ekki markaður fyrir þá í Noregi núna. Hann ætlar sér hinsvegar að kaupa um 100 notaða, hefðbundnari bíla og flytja þá til Noregs.

Rætt er við prófessor Thore Jonsen, við norska Verslunarháskólann sem lýsir sápukúluefnahag Íslendinga sem nú sé sprunginn og því sé ekki skrýtið að bæði fyrirtæki og einkaaðilar hugsi sér gott til glóðarinnar. Aðspurður segir hann Norðmenn ekki eiga að hafa samviskubit yfir að nýta sér ástand frændþjóðarinnar. „Þetta snýst ekki um að gera lítið úr óláni annarra. Fólk hefur það skítt á Íslandi núna og það getur verið mikið hjálp í því að t.d. Norðmenn versli við þau svo Íslendingar geti byggt efnahaginn upp.“

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Hekla hefur m.a. opnað vefsvæði fyrir sölu á bílum til útlanda, www.nordiccarsale.is, þar sem þúsundir bifreiða séu „fastar“ hér á landi á að því er virðist dauðum markaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert