Litríkt loftsteinahrap á himni

Stjörnuáhugamenn sem voru við skoðun í Krýsuvík náður þessari fallegu …
Stjörnuáhugamenn sem voru við skoðun í Krýsuvík náður þessari fallegu mynd af slóð loftsteinsins um kl.22:45 í gærkvöldi Grétar Örn Ómarsson

Margir urðu varir við skæran ljósagang á himni yfir suðvesturlandi í gærkvöldi og barst m.a. Veðurstofunni nokkrar tilkynningar og fyrirspurnir um hvað væri á ferðinni. Skýringuna er að finna í hrapi loftsteins se, sundraðist í nokkra hluta í lofthjúpnum með tilheyrandi ljósasýningu.

Fram kemur á Stjörnufræðivefnum að loftsteinninn sjálfur hafi sést í um tvær sekúndur og þá orðið álíka bjartur og tunglfjórðungur, en slóðin eftir steininn var sýnileg í tæplega 20 mínútur eftir á.

Þannig vildi til að nokkrir félagar úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness voru við stjörnuskoðun við Grænavatn í Krýsuvík í gærkvöldi þegar loftsteinninn féll og sáu þeir hvernig birti allt í kring af bláum bjarma. Í loftsteinahrapinu á himningum mátti greina skæra litadýrð, bláa, græna, gula og hvíta en slóðin eftir steininn var rauðleit.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að litbrigðin sem fylgja hrapinu séu mikilvæg því þau geta sagt til um efnasamsetningu loftsteinsins. Þannig stafaði blágræni liturinn af magnesíum en guli liturinn stafaði af járni. Kalsíumatóm gefa frá sér fjólubláan blæ og kísilatóm rautt ljós. Út frá þessum upplýsingum má ráða að lofsteinninn hafi líklega verið blanda bergs og málma.

Loftsteininn brann upp í um 100 km hæð yfir jörðinni og var sennilega aðeins á stærð við golfkúlu eða tennisbolta, þrátt fyrir hina glæsilegu ljósasýningu sem honum fylgdi.  Félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélaginu meta sýndarbirtustigið á milli -6 og -8, sem þýðir að steininn var talsvert bjartari en Venus.

Stjörnufræðingar framkvæma frekari mælingar á loftsteinahrapinu í dag. Þeir sem urðu vitni að hrapinu eru beðnir um að hafa endilega samband við Þorstein Sæmundsson hjá Almanaki Háskóla Íslands (halo@raunvis.hi.is). Þorsteinn safnar upplýsingum um loftsteinahröp, m.a. til að kortleggja slóð þeirra yfir landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert