Tvö þingmál um listaverk bankanna

Nokkur helstu listaverka Landsbankans eru naglföst, þar á meðal þessar …
Nokkur helstu listaverka Landsbankans eru naglföst, þar á meðal þessar teikningar Kjarvals á bankastjóragangi í aðalbankanum.

Tvö þingmál voru í dag lögð fram á Alþingi um listaverk bankanna, sem ríkið hefur nú tekið yfir. Annað málið er þingsályktunartillaga um að  Listasafn Íslands fái listaverkin til eignar og varðveislu. Hitt málið er frumvarp um að listaverkin verði eign ríkisins.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, leggur fram lagafrumvarpið ásamt Ástu R. Jóhannesdóttur, þingmanni Samfylkingar, og Bjarna Harðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Samkvæmt frumvarpinu eiga listaverkin að vera almenningi áfram til sýnis innan lands í viðskiptabönkunum eftir því sem unnt er en Listasafn ríkisins fari með yfirumsjón verkanna í samráði við bankana, annist skráningu þeirra og efni til kynningar á verkunum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að frumvarpið sé flutt til þess að tryggja að listaverkin verði áfram í eigu þjóðarinnar og eign ríkisins

Talið sé að listaverkin séu alls um 4000. Um 1700 verk voru í eigu Landsbankans. Í safni Kaupþings voru um 1200 verk og tæplega 1100 í eigu Glitnis.

Í þingsályktunartillögu Álfheiðar Ingadóttur og Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanna VG, segir að sú verðmæta þjóðareign, sem listaverkin eru, sé skyndilega komin í eigu fólksins í landinu á nýjan leik. Á þeim fimm árum, sem listaverkin voru í eigu einkaaðila, hafi verið hlúð að safneigninni, hún skráð og við hana bætt nýjum og gömlum listaverkum. Ein frægasta viðbótin sé málverk Jóhannesar Kjarvals „Hvítasunnudagur“, sem hann málaði í kúbískum anda á árunum 1917–1919, en málverkið var slegið þáverandi eigendum Landsbanka Íslands á 1,3 milljónir danskra króna á listaverkauppboði í Kaupmannahöfn í febrúar 2007.

Markmið tillögunnar er sagt vera að tryggja varðveislu þessa menningararfs og að listaverkin verði ekki seld eða með öðrum hætti færð úr eigu almennings á nýjan leik enda þótt eignarhald á bönkunum breytist í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert