Læknar skora á stjórnvöld

Stjórn Læknafélags Íslands skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að standa vörð um heilbrigðiskerfi landsmanna. Nú þegar fjármálakreppa heimsins leggst með miklum þunga á Íslendinga og ljóst er að tími aðhalds og sparnaðar er framundan, er enn mikilvægara en áður að útgjöld ríkisins til heilbrigðismála dragist ekki saman.Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

„Samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum felst heilbrigði í andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Ljóst er að stórir hópar fólks munu bíða fjárhagslegt skipbrot og það getur haft áhrif á andlega og félagslega heilsu. Fólk horfir fram á óvissa og óörugga framtíð og slæm andleg og líkamleg áhrif þess eru byrjuð að koma fram.

Ríkisstjórnin hefur í ljósi aðstæðna boðað niðurskurð á opinberum útgjöldum. Stjórn Læknafélagsins varar við því að útgjöld til heilbrigðismála verði lækkuð. Niðurskurður fjármuna til heilbrigðismála hefur slæm áhrif á heilsufar einstaklinga sem aftur hefur neikvæð áhrif á framlegð þeirra til þjóðarbúsins. Stjórn Læknafélags Íslands leggur áherslu á að framlög til heilbrigðismála verði fremur aukin til þess að hægt verði að mæta þeim heilbrigðisvandamálum sem fylgja núverandi fjármálakreppu.

Stjórn Læknafélagsins telur að brýnt sé að halda áfram þeirri uppbyggingu sem á sér stað í heilbrigðismálum. Hún áréttar að nú sé enn mikilvægara en áður að hefja byggingu nýs húsnæðis undir starfsemi Landspítalans. Bygging spítala felur í sér mörg störf í byggingargeiranum á tímum þar sem atvinnuleysi verður umtalsvert. Það myndi hafa jákvæð áhrif á þá fjölmörgu sem að byggingunni ynnu. Ennfremur væri það yfirlýsing um áherslur á uppbyggingu íslensks samfélags á erfiðleikatímum og hefði jákvæð og löngu tímabær áhrif á heilbrigðisþjónustuna sjálfa.

Þá telur stjórn Læknafélags Íslands mikilvægt að stjórnvöld finni verkefni við hæfi fyrir þau sem missa atvinnuna. Brýnt er að auka aðgang að námi eða starfsmenntun þann tíma sem starfsmissir varir. Er í því sambandi minnt sérstaklega á ungt fólk, sem atvinnuleysi hefur afar slæm áhrif á."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert