Ítreka kröfu um rannsókn

SPRON
SPRON

Árni Gunnarsson fyrrverandi þingmaður, Guðrún Árnadóttir og Vilhjálmur Bjarnason, fyrir hönd Samtaka fjárfesta, hafa ítrekað kröfu um að ríkissaksóknari rannsaki hvort fyrrverandi og núverandi stjórnarmenn í SPRON, Hildur Petersen, Gunnar Þór Gíslason og Ásgeir Baldurs, hafi brotið lög með sölu á stofnfjárhlutum.

Í kæru þremenninganna, sem einnig beinist að Erlendi Hjaltasyni, Ara Bergmanni Einarssyni og Guðmundi Haukssyni, forstjóra SPRON, er vísað til þess að stjórnarmenn í SPRON hafi selt stofnfjárhluti inn á óskráðan markað fyrir á þriðja milljarð að raunvirði, eftir að stjórn SPRON hafði tekið ákvörðun um að breyta sjóðnum í hlutafélag og skrá það á markað. Hlutirnir voru seldir á tímabili 18. júlí til 7. ágúst í fyrra en um söluna var ekki upplýst. Kæran beinist að því atriði, og stjórnarmennirnir og forstjóri hafi með því að brotið lög um meðferð innherjaupplýsinga. SPRON var skráð á markað í október í fyrra.

Vildu rannsókn

Samtök fjárfesta fóru þess á leit við saksóknara efnahagsbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra fyrr á þessu ári, að hann tæki málið til rannsóknar. Engin formleg kæra var þó lögð fram.

Saksóknari efnahagsbrota, Helgi Magnús Gunnarsson, tilkynnti þeim sem höfðu farið fram á rannsókn, þar á meðal Vilhjálmi Bjarnasyni, að málið yrði ekki rannsakað frekar á grundvelli þeirra gagna sem þá lágu fyrir.

Ríkissaksóknari sendi 3. október síðastliðinn bréf til þremenninganna sem kærðu stjórnarmenn og forstjóra SPRON, þar sem segir að saksóknari efnahagsbrota hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til frekari rannsóknar á málinu. Sú niðurstaða standi.

Í svarbréfi þremenninganna, sem sent var ríkissaksóknara 27. október síðastliðinn, kemur fram að niðurstaða saksóknara efnahagsbrota hafi byggt á því að ekki hafi verið komin fram kæra í málinu. Hún sé hins vegar komin fram nú, og því fullgildur grunnur til rannsóknar á málinu.

Þá segir í bréfinu: „Af hálfu dómsmálaráðherra er talið nauðsynlegt að skipa sérstakan saksóknara til að rannsaka viðskipti á vegum bankanna þriggja fyrir bankahrunið mikla. Þessi ákvörðun ráðherra undirstrikar nauðsyn þess að rannsökuð séu fjársvika- og innherjasviðskipti eins og þau sem kæra okkar þremenninga lýtur að. Þess er því krafist að ríkissaksaksóknari haldi á rannsókn málsins á grundvelli kæru okkar án þeirrar tilbúnu forsendu að kæru af okkar hálfu hafi verið hætt af hálfu saksóknara efnahagsbrota. Engin slík kæra hafði komið fram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka