Kreppan kemur fram í sorpinu

Staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar endurspeglast í starfsemi fyrirtækjanna sem taka við sorpinu. Sem dæmi má nefna að í nýliðnum mánuði kom um 28% minna af sorpi í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í Reykjavík en í sama mánuði á síðasta ári. Mest minnkar grófur úrgangur frá fyrirtækjum, ekki síst byggingariðnaði.

Sorp hefur aukist á undanförnum árum og er það rakið til mikillar sveiflu í efnahagslífinu. Aukning var fram á þetta ár. Jón Ólafur Vilhjálmsson, stöðvarstjóri móttökustöðvar Sorpu, segir að í ágúst hafi orðið 17% samdráttur frá sama mánuði í fyrra, mun minni samdráttur í september og síðan 28% minnkun í október. Sorpið hefur þó aðeins minnkað um 4% í heildina það sem af er ári.

Mest áberandi er hvað lítið berst nú af timbri og öðrum afgöngum af byggingarefni. Einnig koma einstaklingar með minna af dóti á endurvinnslustöðvarnar. Jón Ólafur telur að hefðbundið heimilissorp hafi ekki minnkað mikið.

„Það er nánast algert hrun, alveg eins og í hlutabréfunum,“ segir Gísli R. Eiríksson, stöðvarstjóri móttöku- og sorpbrennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík. Þar er tekið við sorpi af Suðurnesjum. Gísli segir að byggingarstarfsemi hafi dregist mjög saman og það komi skýrt fram. Þá sé greinilega ekki mikið um breytingar á heimilum fólks. Hins vegar hefur heimilissorp aukist með fjölgun íbúa á Suðurnesjum.

Sorpbrennslustöðin hafði ekki undan þegar hún var tekin í notkun en brugðist hefur verið við samdrætti í hráefni með því að draga úr afköstum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert