Vilja ESB-aðild og evru

Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi ályktar að hefja skuli viðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu og upptöku evru. Þá gagnrýnir sambandið ríkisstjórn Íslands og ráðamenn þjóðarinnar fyrir ómarkviss vinnubrögð og ósönn og óheppileg ummæli á ögurstundu í efnahagslífi þjóðarinnar.

Í ályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, sem haldið var í gær eru ríkisstjórn og ráðamenn þjóðarinnar gagnrýnd fyrir ómarkviss vinnubrögð og ósönn og óheppileg ummæli á ögurstundu í efnahagslífi þjóðarinnar.

„Á tímum sem þessum skiptir öllu máli að stjórnvöld komi fram af festu, ábyrgð og hreinskilni, þannig að almenningur og umheimurinn öðlist trú á því að þjóðin vinni sig út úr þeim erfiðleikum sem blasa við,“ segir í ályktuninnni.
 
Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi kalla eftir því að ríkisstjórn Íslands fari með völd sín af varúð og sýni Alþingi og kjörnum fulltrúum þá virðingu að réttmæt ákvarðanataka fari þar fram í stað þess að fámennir fulltrúar framkvæmdavaldsins gegni aðalhlutverki. Sterkur þingmeirihluti beri mikla ábyrgð og fari með mikil völd en samráðsleysi við stjórnarandstöðu og helstu hagsmunaaðila atvinnulífs, verkalýðshreyfingar og sveitarstjórnarvettvangs gengisfelli þennan sama meirihluta og bitni á árangri við erfiðar aðstæður.

Bæti stjórnvöld ekki ráð sitt, eigi þau að sjá sóma sinn í að viðurkenna að þau valdi ekki verkefni sínu og biðjast lausnar, þannig að unnt sé að boða til kosninga og tryggja að ábyrgir aðilar taki við stýrinu og sigli þjóðarskútunni í örugga höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert