Ólafur Ragnar sendi Obama heillaóskir

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sendi í dag nýkjörnum forseta Bandaríkjanna Barack Obama og fjölskyldu hans heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni.

Í bréfinu sagði forseti Íslands að kosning Obama væri sögulegur vitnisburður um að í krafti lýðræðis gætu hugsjónir og framsýni, vonir og barátta almennings orðið áhrifaríkt breytingaafl.

Vandamálin sem nú blasa við veröldinni – þörfin á að skapa frið og öryggi, baráttan gegn loftslagsbreytingum, endurbætur á fjármálakerfi heimsins og umbætur í þágu hinna fátækari og til að veita öllum rétt til heilbrigðisþjónustu og menntunar – kalla á afgerandi forystu.

Forseti Íslands rifjaði í bréfinu upp samræður þeirra Obama þar sem reynsla og kunnátta Íslendinga í nýtingu hreinnar orku hafi verið á dagskrá, hvernig Íslendingar gætu orðið að liði við að umskapa orkubúskap Bandaríkjanna, hverfa frá olíu og kolum til hreinna orkugjafa og koma þannig í veg fyrir hinar hrikalegu loftslagsbreytingar. Íslendingar væru nú sem áður reiðubúnir til slíkrar samvinnu við Bandaríkin.

Vinátta Íslands og Bandaríkjanna ætti sér djúpar rætur í lýðræðislegum arfi landanna, vitneskju um að eitt elsta lýðræðisríki heims og hið öflugasta gætu komið góðum málum til leiðar.

Við værum einnig reiðubúin til að deila nýfenginni reynslu okkar í glímunni við fjármálakreppuna með öðrum og taka þannig þátt í því að ríkjum veraldar takist að skapa nýja umgjörð, öruggari stjórn og tryggara eftirlit, breyta stofnunum sem kenndar eru við Bretton Woods á þann veg að þær fullnægi betur þörfum 21. aldar.

Forsetinn vék í lok bréfsins að samstarfi sínu við forystumenn í Bandaríkjunum á undanförnum árum og óskaðir nýkjörnum forseta og þingi allra heilla í vandasömum verkum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert