Björgum Bjarna

Íslenskur námsmaður í Danmörku segist finna fyrir miklum stuðningi meðal vina sinna og félaga, en hann greinir frá því að einn danskur félagi hans hafi stofnað hóp á Facebook samfélagssíðunni til að safna pening handa honum.

Bjarni Þór Haraldsson, sem er á þriðja ári í tölvuverkfræði við háskólann í Álaborg, hafði samband við mbl.is og vildi koma jákvæðri frétt á framfæri. Hann segist hafa kynnst mikið af góðu og skemmtilegu fólki þar sem hann sé við nám.

Hann segir að þegar fjármálakreppan hafi skollið á af fullum þunga hafi hann fengið að heyra það öðru hverju. „Maður fékk alveg að vita það að við hefðum farið óvarlega og glannalega og jafnvel farið fram með smá hroka,“ segir Bjarni.

„En nú hefur góður vinur minn hér í borg stofnað hóp á Facebook vefnum
til að safna pening handa mér.“ Hópurinn heitir „Red Bjarni!! Islandsk studerende der ikke kan få penge!!“

„Mér finnst þetta fallega gert og sýnir mikinn stuðning. Það er aðallega hugsunin sem mér finnst falleg,“ segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert