Fá ekki að skila lóðum strax

Mikill samdráttur ríkir á byggingamarkaði
Mikill samdráttur ríkir á byggingamarkaði mbl.is/hag

Kona sem ætlaði að skila inn lóð til Reykjavíkurborgar kom að lokuðum dyrum. Neytendasamtökin gengu í málið fyrir hana og fengu þau svör ákveðið hefði verið að stöðva skil á lóðum og endurgreiðslu lóðagjalda, að minnsta kosti fyrst um sinn.

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og framkvæmda og eignarráðs, staðfestir þetta og segir aðgerðarhóp á vegum borgarinnar vera að móta nýjar tillögur varðandi lóðaskil og endurgreiðslu. „Vonast er til að borgarráð taki málið fyrir fljótlega. Þá verður tekin afstaða til þess hvort og með hvaða hætti hægt verður að skila inn lóðum.“

Óskar segir að ákveðið hafi verið að taka ekki við lóðunum strax því það sé bæði fólki og borginni í hag að bíða með það. „Ástæðan fyrir því að við setjum þetta fram með þessum hætti er að þeir sem skila inn núna myndu hugsanlega ekki skila inn lóðunum þegar þeri sjá breytingarnar sem við leggjum til. Ef lóðaeigendur kjósa að þiggja breytta skilmála mun það standa þeim til boða.“

Neytendasamtökin rita á heimasíðu sína að þau telji eðlilegt að borgin kynni málið betur fyrir borgarbúum og setji mikilvægar upplýsingar sem þessar á heimasíðu sína hið fyrsta. „Mikið hefur verið rætt um skort á upplýsingagjöf undanfarið og er ástæða til að undirstrika mikilvægi þess að fólk sé vel upplýst um stöðu mála.“

Neytendasamtökin vonast til þess að Reykjavíkurborg sem og önnur sveitarfélög heimili áfram lóðaskil, þar sem heimilin búi við allt aðrar og erfiðari aðstæður nú. „[L]jóst er að það mun setja mörg heimili í uppnám ef ákveðið verður að hætta að taka við lóðum.“

Óskar segir að ákveðið hafi verið í síðustu viku að taka ekki við fleiri lóðum á þessum tímapunkti. „Við fundum í framkvædmasráði í dag.“ Þar verði farið yfir tillögurnar. „En það er ljóst að við verðum að vinna þetta mál hratt.“

Borgin hefur endurgreitt lóðir fyrir 2,5 milljarða króna á árinu. 41 einbýlishúsalóð, 16 par- og raðhúsalóðum og 2 fjölbýlishúsalóðum hefur verið skilað á árinu, þar af 21 í október. Borgin hefur endurgreitt 1.470 milljónir vegna íbúðalóðum og 985 milljónir vegna sex atvinnuhúsalóða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka