Ætlaði ekki að vera fyndinn

Reuters

„Þetta átti alls ekki að vera brandari,“ segir dr. Matt Muijem, framkvæmdastjóri geðheilbrigðissviðs WHO í Evrópu. „Ég vildi með þessu benda á að við höfum tekið hamingjuna sem gefna í langan tíma en að aðstæður gætu breyst eins og dæmið um Ísland sýnir.“

Í gær sagði Morgunblaðið frá ræðu Muijem á ráðstefnu geðhjúkrunarfræðinga sem haldin var á Möltu í síðustu viku. Þar vöktu orð hans um að Ísland væri kannski ekki lengur hamingjusamasta þjóð í heimi kátínu ráðstefnugesta.

Muijem segir að sennilega hafi „kjánalegt landakort“ af hamingjudreifingu heimsins vakið hlátur viðstaddra, en hann hafi bent á Ísland á því um leið og hann nefndi landið. „Punkturinn minn var mjög alvarlegs eðlis og hláturinn kom til af landakortinu. Ég held að enginn hafi verið að hlæja að Íslandi. Ég sagði að þetta kort væri merkingarlaust og allt væri nú breytt. Ég bætti raunar við að mér þætti þetta ekki sérstaklega fyndið. Það er hræðilegt ef fólk heldur að mér þyki ástandið á Íslandi fyndið og ég biðst innilegrar afsökunar ef einhver upplifði það svo.“

Hann segist hafa hugsað mikið um það á undanförnum vikum hvernig efnahagsástandið hafi áhrif á geðheilsu fólks enda sé mikið að breytast á Vesturlöndum um þessar mundir. „Þetta kemur þó inn á hugtakið Schadenfreude (þórðargleði), þ.e. að stundum virðumst við gleðjast yfir óförum annarra. Og það væri athyglisvert að vita hvað restinni af Evrópu finnst um Ísland núna. Hins vegar held ég að þeir sem hlæja að ykkur núna ættu að hugsa sig tvisvar um því við eigum eftir að sjá hver hlær í lokin. Margir munu uppgötva að bráðlega verða þeirra aðstæður ekki svo ólíkar ykkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert