Gagnasöfnun vegna lánafrystingar misdýr

SPRON er eina fjármálastofnunin sem veitir gjaldfrjálsa aðstoð vegna undirbúnings frystingar lána hjá Íbúðalánasjóði, samkvæmt könnun Neytendasamtakanna. Aðrir bankar taka allt upp í 8500 krónur fyrir þjónustuna. Glitnir er eini bankinn sem ekki býður upp á þessa þjónustu.

Neytendasamtökin könnuðu hvaða gjald bankar og sparisjóðir taka fyrir aðstoð við undirbúning frystingar lána hjá Íbúðalánasjóði.

SPRON: tekur ekki gjald fyrir þetta.
Nýi Glitnir: býður ekki upp á þessa þjónustu.
Nýja Kaupþing: 5000 kr.
Nýi Landsbankinn: 8500 kr. (gjaldið í endurskoðun til lækkunar).
Byr: 8500 kr.

Neytendasamtökin segja að um lágmarksgjald sé að ræða en einnig getur þurft að greiða sérstaklega fyrir ýmis gögn sem fylgja skulu umsókninni.

Til að eiga þess kost að frysta greiðslur lána hjá Íbúðalánasjóði tímabundið þurfa umsækjendur að uppfylla ýmis skilyrði. Lántakandi þarf að hafa staðið í skilum en greiðslubyrði lánsins þarf, samkvæmt greiðslumati, að vera umfram greiðslugetu lántakanda. Greiðsluerfiðleikar þurfa að stafa af tímabundnum erfiðleikum, s.s. atvinnuleysi eða veikindum. Þá þurfa aðrir lánadrottnar en Íbúðalánasjóður einnig að fallast á að veita greiðanda aðstoð vegna ástandsins.

Ýmis gögn þurfa svo að fylgja umsókn um frystingu, eins og t.d. afrit af skattskýrslum, launaseðlum, samningum við kröfuhafa og veðbókarvottorð.

Lántakendur geta ekki snúið sér beint til sjóðsins og farið fram á frystingu heldur þarf beiðnin að koma í gegnum viðskiptabanka viðkomandi eða ráðgjafarstofu um ráðgjöf heimilanna.

Ráðgjafarstofan tekur ekkert gjald fyrir aðstoð af þessu tagi en biðtími eftir ráðgjöf þar er hins vegar 4-6 vikur.

Hinn möguleikinn er að leita til viðskiptabanka og fá aðstoð þjónustufulltrúa við umsóknarferlið. Það getur hins vegar kostað sitt eins og fram kom hé rað framan. Bankarnir rökstyðja kostnaðinn með þeim hætti að gera þurfi greiðslumat og fylla út ýmis form og halda utan um fylgigögn.

Heimasíða Neytendasamtakanna

Nánar um frystingu lána hjá Íbúðalánasjóði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka